Þröstur Ingvason sölustjóri næst elsta hlutafélags landsins, Slippfélagsins, segir að ákvörðun félagsins um að flytja sé tengd framtíðarskipulagsáformum Vogahverfis að því er Morgunblaðið greinir frá.

Fyrirtækið mun flytja í gamla húsnæði Vodafone við Skútuvog 2, rétt við Holtagarða, en í dag er fyrirtækið með heildverslun í Dugguvogi 4, ásamt verslunum í Borgartúni, Dalvegi í Hafnarfirði, Keflavík og á Akureyri.

Verður jafnframt opnuð 800 fermetra sérverslun með málningarvörur í húsnæðinu sem hýsti höfuðstöðvar Vodafone í mörg ár, en verslunin verður sú stærsta á landinu. Verður um hefðbundna verslun fyrir almenning að ræða, en einnig verður sérstakur iðnaðarmannainngangur.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur Vodafone flutt í nýtt húsnæði við Suðurlandsbraut, þar sem stefnt er að því að koma allri starfseminni í húsin númer 8 og 10.

„Við veltum fyrir okkur að vera áfram í Dugguvoginum, en ákváðum á endanum að flytja og munum gera það í apríl,“ segir Þröstur. „Við erum búin að vera í Dugguvogi síðan 1972, en Slippfélagið sjálft var stofnað 1902 og er næstelsta hlutafélag landsins.“

Félagið er í eigu Málningar hf., sem keypti það árið 2010, en fyrirtækið sér um framleiðslu á málningu fyrirtækisins. Að öðru leyti segir Þröstur rekstur félaganna ótengdan. „Við erum í beinni samkeppni við eigendur okkar.“