LBI ehf. (áður Landsbanki Íslands hf.) og PricewaterhouseCoopers (PwC) hafa náð sáttum. Sættirnar fela í sér að dómsmál LBI ehf. gegn PWC sem rekið hefur verið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, hefur verið fellt niður, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Það er mat LBI ehf. og PWC að sú niðurstaða sem sáttin færir sé viðunandi eftir atvikum. Með henni er komið í veg fyrir ófyrirsjáanlegan kostnað af áframhaldandi málarekstri um ófyrirséðan tíma og aðilar geta nú betur einbeitt sér að daglegri starfsemi sinni,“ segir þar.

Í frétt Ríkisútvarpsins um málið kemur fram að slitastjórn Landsbankans krafði PwC um tæplega 100 milljarða króna í skaðabætur vegna tjóns sem hún taldi fyrirtækið hafa valdið bankanum fyrir hrun.