Eftirlitsstofnun EFTA segir ekki rétt staðið að lögum um endurskipulagningu íslenskra lánastofnana. Íslensk stjórnvöld hafa að mati stofnunnarinnar ekki innleitt ESB tilskipun um endurskipulagningu og slitameðferð lánastofnana með fullnægjandi hætti.

Tilskipun 2001/24/EB, sem kveður á um hvernig endurskipulagningu eða slitameðferð lánastofnana innan Evrópska efnahagssvæðisins skuli hátta, tiltekur þrjú undantekningartilvik frá meginreglum, sem samkvæmt rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunarinnar hafi ekki verið innleidd með fullnægjandi hætti.

Samkvæmt tilskipuninni er grunnreglan sú að endurskipulagningin ræðst af þeirri málsmeðferð, lögum og reglum sem gilda heimaríki lánastofnunarinnar, það er þar sem hún er skráð. En í tilskipuninni eru tilgreindar ákveðnar undantekningar frá þessari reglu og mat ESA er að þrjú undantekningarákvæði hafi ekki verið rétt innleidd.

Hafi rétt á að fara fram á að lög annars ríkis gildi

Eitt þeirra tiltekur rétt kröfuhafa til að halda því fram að endurskipulagningin eigi að fara fram samkvæmt lögum annars EES ríkis en heimaríkisins. Hin tvö varða greiðslujöfnunarsamninga og rétt til skuldajafnaðar.

Rökstudda álitið sem ESA sendi Íslandi í dag er annað þrepið í samningsbrotamáli gegn íslenska ríkinu. Verði ekki brugðist við innan tveggja mánaða getur ESA vísað málinu til EFTA-dómstólsins.

„Eitt meginmarkmiða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er að fyrirtæki og einstaklingar njóti sömu réttinda og réttaröryggis," segir Högni Kristjánsson, stjórnarmaður ESA. „Grundvöllur þess er fullnægjandi innleiðing og framkvæmd EES löggjafar á öllu svæðinu.“