Gjaldeyrisforði Seðlabankans hefur lækkað um helming frá áramótum og stendur hann nú í 532 milljörðum króna. Hreinn gjaldeyrisforði, þar sem skammtímaskuldir eru dregnar frá erlendum eignum, breyttist hins vegar lítið og var hann 467 milljarðar króna í lok september.

Greining Íslandsbanka er á svipuðum nótum og greiningardeild Arion banka í dag. Í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka er fjallað um þrotabú föllnu viðskiptabankanna og talið fram að ástæða þess að gjaldeyrisforðinn lækkaði skýrist af úttektum þrotabúa gömlu bankanna á gjaldeyrisinnstæðum sem hafa átt hjá Seðlabankanum síðastliðin fjögur ár.

Moka út af reikningunum

Innstæðurnarnar námu 336 milljörðum króna í byrjun árs en voru komnar niður í 21 milljarð króna í lok september. Bent er á að þegar gjaldeyrislögum var síðast breytt í mars síðastliðnum var undanþága vegna fjármagnsflutninga þrotabúanna á gjaldeyri milli landa afnumin, en þó voru þar undanskildar innstæður í Seðlabankanum og hjá erlendum fjármálafyrirtækjum eins og þær stóðu í mars. Greining Íslandsbanka bendir eins og áður koma fram, að innstæðurnar hafi nú að mestu runnið úr Seðlabankanum.

Greining Íslandsbanka segir tímasetningu úttektana athyglisverða og segir:

„Í lögunum frá mars, þar sem undanþága vegna þrotabúa gömlu bankanna var afnumin, var kveðið á um að Seðlabankinn skyldi svo fljótt sem við yrði komið, setja reglur um hvernig undanþágum fyrir þrotabúin vegna gjaldeyriseigna yrði háttað. Nú, sjö mánuðum síðar, hafa þessar reglur enn ekki litið dagsins ljós en líklegt má telja að þær muni verða kynntar áður en nauðarsamningum vegna gömlu bankanna lýkur á næstu mánuðum. Hugsanlegt er að þrotabúin telji tryggara að færa gjaldeyriseignir sínar út fyrir landsteinana áður en hinar nýju reglur taka gildi, enda er reynsla þeirra af breytingum á regluverki stjórnvalda um gjaldeyrismál líklega ekki til þess fallin að auka traust á því að búin fái að ráðstafa þessum eignum að vild í framtíðinni.“