Eik hefur fallið frá kaupum á Opus fasteignafélagi ehf, sem á 17 fasteignir á höfuðborgarsvæðinu sem telja yfir 30 þúsund fermetra af atvinnu- og skrifstofuhúsnæði. Í tilkynningu frá Eik kemur fram að aðilar hafi hvorki náð saman um hvert endanlegt eignasafn félagsins yrði í kaupunum né um endanlegt kaupverð.

Fyrst var greint frá því að viðræður væru hafnar 30. nóvember 2018 . Þá kom fram að Opus væri í eigu fagfjárfestasjóðsins GAMMA: OPUS sem er í rekstri hjá GAMMA. Þá sagði jafnframt að Eik hafði á þeirri stundu takmarkaðar upplýsingar um eignasafnið.  Eik hefði ekki skoðað fasteignirnar né viðeigandi skjöl svo sem leigusamninga og gæti því ekkert sagt til um mögulegt kaupverð eða hvaða áhrif kaupin gætu haft á félagið. Nú er hins vegar ljóst að ekki verður af kaupunum.