Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 fyrir skömmu, að fjárhagsstaða og rekstur Wow air sé með þeim hætti að félagið treysti sér ekki til að halda áfram með viðræðurnar.

„Eftir mikla vinnu og skoðun undanfarna daga, þá er niðurstaða okkar sú að rekstur og fjárhagsstaða Wow air er með þeim hætti að við treystum okkur ekki til þess að halda áfram með málið og ákváðum að slíta viðræðunum," sagði Bogi.

Bogi vísar jafnframt til þess að þegar viðræður á milli félaganna hófust upphaflega síðastliðið haust, hafi vissar forsendur verið til staðar og skuldastaðan með ákveðnum hætti. Nú á undanförnum vikum hafi komið fram upplýsingar um að skilmálar skuldabréfa og annarra skulda WOW air gætu hafa tekið breytingum frá síðastliðnu hausti. Sökum þess hafi verið ákveðið að skoða málið aftur á síðustu vikum.

Bogi segir að starfsmenn Icelandair telji að hægt verði að leysa vandamál vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX 8 flugvélanna á annan hátt en að notast við Airbus vélar WOW air. „Það er spurning hvenær MAX-in kemur í rekstur. Ef það verður frekari töf á því getum við leigt aðrar vélar tímabundið. Við erum að skoða ýmsar lausnir hvað það varðar," sagði hann.

Loks benti Bogi á að sé 26 flugfélög að fljúga til Íslands í sumar og Icelandair geti bætt við sætaframboð sitt. Sama hvað gerðist úr þessu væri framtíð íslenskrar ferðaþjónustu björt. Þá segist hann vona að framtíð Wow verði tryggð.