Ríkisstjórn Slóveníu hefur kynnt aðgerðir sem vonast er til að muni koma í veg fyrir að landið þurfi að leita á náðir ESB og Alþjóðgjaldeyrissjóðsins eins og Grikkland og Kýpur.

Fela þær m.a. í sér skattahækkanir, umfangsmiklar breytingar á bankakerfi landsins og einkavæðingu á mörgum ríkisfyrirtækjum.

Bankakerfið í Slóveníu er að stærstum hluta í eigu ríkisins og á í töluverðum skuldavanda. Er vandinn svo mikill að margir spá því að landið muni á endanum þurfa að fá utanaðkomandi aðstoð. Hefur slóvenska ríkinu reynst erfitt að afla lánsfjár erlendis frá.

Hagkerfi Slóveníu hefur verið í kreppu frá árinu 2011 og í síðustu viku lækkaði matsfyrirtækið Moody's lánshæfiseinkunn landsins niður í svokallaðan ruslflokk.