Vísitala sem fylgir verðþróun smærri fyrirtækja í Bretlandi sýnis að vöxtur þeirra hefur verið hraður síðan Bretar kusu að yfirgefa Evrópusambandið.

Hefur vöxtur þeirra farið fram úr vexti meðalstórra fyrirtækja, en vísitalan hefur hækkað um 4,1% síðan niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar urðu kunnar.

Sölutölur langt fram úr væntingum

Lítil fyrirtæki jöfnuðu sig fljótt eftir áfallið sem kom eftir að niðurstöðurnar urðu kunnar og hagtölur sýndu að svartsýnustu spár reyndust ekki á rökum reistar.

Þvert á móti þá hafa sölutölur farið langt fram úr væntingum, hefur salan ekki aukist meira í júlímánuði síðan 2002, á sama tíma og Englandsbanki hefur lækkað stýrivexti sína og aukið við aðgerðir sínar til að koma fé út í hagkerfið.

Meiri vöxtur hjá minni fyrirtækjum

Fyrirtæki á FTSE vísitölunni sem fylgir verðþróun smærri fyrirtækja, hafa að meðaltali 320 milljón punda markaðsvirði, sem er um 14 falt andvirði áætlaðra tekna þeirra.

Meðalarðgreiðslur af þeim eru um 3,2% samanborið við minna en 3% hjá fyrirtækjum á FTSE 250 listanum yfir meðalstór fyrirtæki.

Græða á veikara gengi pundsins

Fyrirtækin á vísitölunni fá mörg hver stóran hluta af tekjum sínum erlendis frá, svo þau græða á veikara gengi breska pundsins.

Á árinu 2016 hefur vísitalan hækkað um 3,7% samanborið við 2,5% hækkun á FTSE 250 vísitölunni, svo þetta er fjórða af síðustu 5 árum sem hún hækkar meira en vísitalan fyrir miðlungsstór fyrirtæki.

Meira en helmingur fyrirtækjanna hækkað í virði

Stærstu fyrirtækin af þeim sem tilheyra vísitölu smærri fyrirtækja, eins og til dæmis fjárfestingarfyrirtækið Melrose Industries Plc og Premier Farnell, fá nærri 70% af sölu sinni erlendis frá, samkvæmt tölum frá Bloomberg fréttastofunni .

Síðan niðurstöður atkvæðagreiðslunnar urðu kunnar, hafa meira en helmingur fyrirtækjanna sem tilheyra vísitölunni hækkað í virði, þar á meeðal hefur Ferrexpo Plc hækkað um meira en 150% síðan matsfyrirtækið Fitch Ratings hækkaði lánshæfismat járngrýtisframleiðandans, samfara hækkandi verði á málminum.