Orkustofnun telur að tvær smávirkjanir á Norðurlandi vestra og tvær smávirkjanir á Suðurlandi geti skilað 1,58 MW af uppsettu afli sem nemur um 13,3 GW stundum á ári. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá stofnuninni sem var unnin vegna alvarlegrar stöðu í raforkuöryggismálum landsins. Í skýrslunni segir að kerfið eins og það er í dag geti ekki staðið undir frekari uppbyggingu á atvinnustarfsemi út um land.

Orkustofnun kallaði eftir hugmyndum frá landshlutasamtök sveitarfélaga um smærri virkjanakosti. Af hugmyndum landshlutasamtakann sá stofnunin sér fært um að stilla upp fjórum fyrrgreindum virkjanahugmyndum. Þær eru Ormsá á Norðurlandi Vestra en uppsett afl hennar er metið á 745 kW, Stóra Giljá einnig á Norðurlandi Vestra sem er talin geta staðið undir 372 kW af uppsettu afli, Gunnarsholt á Suðurlandi en uppsett afl þeirrar virkjunar er talið geta numið 224 kW og loks Ketilshúshagi 1 á Suðurlandi sem er metinn á 240 kW af uppsettu afli.

Auk þessara hugmynda eru fleiri virkjanir í skoðun hjá Fjórðungssambandi Vestfirðinga en þær tillögur eru komnar lengra og í skoðun hjá aðilum sem hafa það að markmiði að nýta þá.

Ef af uppbyggingu smávirkjana verður er það talið geta verið lyftistöng fyrir bæði bændur og aðra atvinnustarfsemi víða um land, auk þess sem það er talið geta stuðlað að auknu orkuöryggi í landinu.

Samkvæmt heimasíðu Orkustofnunar var uppsett afl árið 2014 í allri raforkuframleiðslu landsins um 2.757 MW og því ljóst að smávirkjanirnar fjórar eru afar litlar í stóra samhenginu.