Alls hófst smíði á um 922 nýjum íbúðum í Reykjavík á liðnu ári og er það svipaður fjöldi og árið áður. Síðastliðin tvö ár eru 50% yfir meðaltali fjölda íbúða sem hafin er smíði á en það eru 616 íbúðir á ári, ef tekið er mið af tölum frá árinu 1972. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Aðeins þrisvar áður hefur fjöldi nýrra íbúða sem hafin er bygging á farið yfir fjölda íbúða síðustu tveggja ára. Flestar voru þær árið 1973 en þá var hafin bygging á 1.133 íbúðum þegar Breiðholt og Árbær voru í uppbyggingu, árið 1986 þegar Grafarvogurinn var að byggjast upp var hafin bygging á 992 íbúðum og loks árið 2005 þegar hafin var bygging á 983 íbúðum en þá voru Grafarholt og Úlfarsárdalur að byggjast upp.  Árið 2015 er svo í fjórða sæti með 926 íbúðir og árið 2016 í fimmta sæti með 922 íbúðir,“ segir í fréttinni.

Samkvæmt mati umhverfis- og skipulagssviðs eru um 1.800 íbúðir í uppbyggingu í dag. Fjöldi fullgerðra íbúða eða teknar í notkun í fyrra voru 399 talins og þá voru 461 íbúð skráð á fokheldu byggingarstigi eða tilbúnar til innréttinga.