Í kjölfar fréttar Viðskiptablaðsins í gær þar sem sagt var frá gagnrýni Félags atvinnurekenda á tollafyrirkomulag varðandi snakk á Íslandi hefur annar tveggja snakkframleiðenda á Íslandi svarað fyrir sig.

Í tilkynningu Iðnmarks, framleiðanda vörutegunda á við Stjörnupopps, segir að kostnaðarsamt sé að flytja snakk út, rétt eins og það sé kostnaðarsamt að flytja það inn undir núverandi tollastefnu.

„Iðnmark hefur á undanförnum árum fengið fyrirspurnir frá erlendum verslunarkeðjum og sérstaklega vegna framleiðslu á svokölluðu private label þ.e sérpakkað undir merki verslunarkeðjunar. Við vorum komnir langt með samning við Norska keðju þegar kom í ljós að innflutningsgjöld til Noregs á okkar vöru voru 585kr á hvert kíló og eftir útreikninga var hætt við allt saman.”

Sigurjón Dagbjartsson, framkvæmdastjóri Iðnmarks, segir í tilkynningunni að það sé skoðun starfsfólks Iðnmark að gæta þurfi að innflutningsgjöld virki í báðar áttir. Enn fremur segir Sigurjón að mikilvægt sé að gæta hagsmuna þeirra 20 starfsmanna sem hafa framfæri af því að framleiða snakk hjá íslenskum fyrirtækjum:

„Það er alveg ljóst í okkar huga að þetta þarf að skoða betur og kanna vel að innflutningsgjöld bæði tollar og kílóagjöld virki í báðar áttir til að gæta hagsmuna allra og þá allra helst þeirra 20 starfsmanna sem hafa framfæri sitt af því að framleiða snakk hjá þessum fyrirtækjum.”

Kostnaðarsamir innflutningstollar

Eins og sagt var frá í frétt Viðskiptablaðsins í gær kosta innflutningstollar á kartöflusnakk neytendur einhverjar 160 milljónir á ári hverju. Nú liggur fyrir á Alþingi tillaga meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar um að fella niður 59% toll á innfluttu kartöflusnakki.

Í viðtali á Bylgjunni síðastliðinn föstudag upplýsti Willum Þór Þórsson, nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd, að nefndin hefði fengið mikil viðbrögð frá innlendum snakkframleiðendum, sem flyttu inn hráefni í framleiðslu sína sem bæru tolla. Nefndin þyrfti því að skoða „víðtækari hagsmuni.“

Í frétt á vef Félags atvinnurekenda kemur fram að neytendur greiddu rúmlega 160 milljónir króna í tolla af vörum sem falla undir þetta tollskrárnúmer á tólf mánaða tímabili. Hér er því um mikla hagsmuni að ræða fyrir neytendur.

Í frétt Félags atvinnurekenda segir meðal annars:

Ofurtollar á innflutta matvöru eru yfirleitt réttlættir með því að verið sé að vernda innlenda búvöruframleiðslu. Það getur ekki átt við um snakktollana. Innlendir snakkframleiðendur, Iðnmark og Þykkvabæjar, anna aðeins litlu broti innanlandsmarkaðar fyrir snakk.

Í kartöflusnakkið þeirra er notað lítið sem ekkert af innlendum kartöflum, heldur er það eftir því sem næst verður komist að stærstum hluta búið til úr innfluttu kartöflumjöli sem ber lága eða enga tolla.

Og séu einhverjir tollar á aðföngum til þessara tveggja fámennu vinnustaða sem anna litlu broti af innanlandseftirspurn er algjörlega fráleitt að rukka neytendur um hundruð milljóna króna í toll af öllu hinu snakkinu sem borðað er á Íslandi; það er nær að afnema líka tollana af aðföngunum.