Kristrún Frostadóttir, nýráðinn hagfræðingur Viðskiptaráðs, hefur starfað í greiningardeild bandaríska fjárfestingarbankans Morgan Stanley í London undanfarið ár og þar áður eitt sumar fyrir bankann í New York.

„Ég hlakka til að flytja aftur heim og er spennt fyrir að hefja störf fyrir Viðskiptaráð, og svo verður áhugavert að vinna með nýjum framkvæmdastjóra, Ástu Sigríði Fjeldsted, sem er einnig með skemmtilegan alþjóðlegan bakgrunn,“ segir Kristrún.

„Nú er áhugaverður tími til að koma heim, það er ný ríkisstjórn og verið að lyfta höftum og mikið verið að velta vöngum yfir þróun gengis krónunnar. Þetta er skemmtileg staða að stíga inn í þegar maður er nýlentur á Klakanum.“

Kristrún og eiginmaður hennar fóru saman til Bandaríkjanna í nám, þar sem hún hugðist fyrst fara í doktorsnám í hagfræði.

„Ég útskrifaðist með B.S gráðu í hagfræði við HÍ árið 2011 en ég var svo heppin að á síðustu tveimur árunum þar var ég að vinna með námi í Seðlabankanum á skrifstofu bankastjóra.

Þetta var mjög áhugaverður tími, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var áberandi sem var kveikjan að enn meiri áhuga mínum á náminu,“ segir Kristrún sem segir viðkynningu sína á fólkinu í kringum sjóðinn hafa ýtt undir áhuga sinn á að fara út í nám.

„En ég beið aðeins með það því ég vildi fara að vinna og starfaði árin 2011 til 2012 í greiningardeildinni í Arion banka.“ Eftir að Kristrún var búin að fá mastersgráðu í hagfræði við Boston háskóla hætti hún við að halda áfram á doktorsbrautinni.

„Ég ákvað að mig langaði mun meira að vera í praktísku námi,“ segir Kristrún eftir reynslu sína úr atvinnulífinu.

„Ég kunni mjög vel við mig í störfum sem voru svona meira út á við og fór ég því í nám í alþjóðafræði sem mér þótti eins og sérsniðið fyrir mig. Þetta var tveggja ára nám en í það taka þeir í raun mjög lítinn hóp, eða 25-30 manns, með mjög fjölbreyttan bakgrunn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .