*

sunnudagur, 22. apríl 2018
Erlent 16. apríl 2017 17:58

Sögulegt forskot Íhaldsflokksins

Samkvæmt nýrri könnun mælist fylgi Íhaldsflokksins 21 prósentustigum meira en fylgi Verkamannaflokksins í Bretlandi.

Pétur Gunnarsson
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
epa

Fylgi Íhaldsflokksins í Bretlandi mælist 46 prósent í nýrri könnun sem að ComRes framkvæmdi fyrir breska dagblaðið Independent. Fylgi Verkamannaflokksins mælist hins vegar einungis 25 prósent og er 21 prósentustiga munur á tveimur stærstu stjórnmálaflokkunum í þessu grannríki okkar. Ekki hefur Íhaldsflokkurinn verið með meira forskot á Verkamannaflokkinn, þegar þeir hafa haldið í stjórnartaumana síðan 1983. 

Fylgi Frjálslyndra Demókrata mælist nú 11 prósent og fylgi Ukip 9 prósent. Eins og flestir vita ákváðu Bretar síðastliðið sumar að ganga úr Evrópusambandinu, og klauf málið þjóðina. Íhaldsflokkurinn undir stjórn David Cameron tók ákvörðun um að halda atkvæðagreiðslu, en í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar sagði forsætisráðherrann af sér. Þá tók við Theresa May, sem forsætisráðherra, en nú bíður henni það verkefni að semja við ESB um útgöngu landsins úr sambandinu. 

Jeremy Corbyn er formaður Verkamannaflokksins og líklegt er talið að þessar tölur veiki stöðu hans innan flokksins, en óvinsældir Verkamannaflokksins hafa sjaldan verið eins miklar á síðari árum.