Á þessu ári hefur verið varið meira fjármagni í kauphallarsjóði heldur en í vogunarsjóði í Bandaríkjunum. Þetta kom fram í erindi sem Erik Rotander, framkvæmdastjóri hjá Deutsche Bank, hélt um slíka sjóði hér á landi í síðustu viku. Hann var hér á landi vegna ráðstefnu sem haldin var á vegum Deutsche Bank, Nasdaq OMX Iceland og Landsbréfa um markaðinn fyrir kauphallarsjóði.

Eins og legókubbar

Vinsældir kauphallarsjóða hafa farið ört vaxandi á síðustu árum en að sögn Rotanders hafa þeir vaxið í umsvifum um 15% árlega síðastliðin tíu ár. Í erindi hans kom fram að fjármagn í kauphallarsjóðum væri orðið meira en í vogunarsjóðum í Bandaríkjunum. Kauphallarsjóðir hafa einna helst þann kost að þeir eru mjög sveigjanlegir að hans mati. „Þú getur hugsað um þá eins og legókubba,“ segir Rotander. „Þú getur gert það sem þú vilt við þá. Það skiptir ekki máli hvernig eignasafn þú ert með, kauphallarsjóðir geta alltaf verið viðeigandi. Helsti kosturinn sem fólk talar um er að þeir eru ódýrir, gegnsæir og lýðræðislegir. Allir fjárfestar sem fjárfesta í kauphallarsjóði gera það á sömu kjörum. Það skiptir ekki máli hvort þú sért einstakur fjárfestir eða lífeyrissjóður, allir sitja sama megin borðsins. Það er ekki oft sem fjárfestar hafa völ á slíku. Þannig geta kauphallarsjóðir hentað alls kyns fjárfestum og alls kyns eignasöfnum.“ Hann bendir á að fjárfestar geti t.a.m. nýtt kauphallarsjóði til að fjárfesta á sviðum þar sem þeir njóta ekki sérþekkingar. „Ef þú ert t.d. sérfróður um skuldabréf þá getur þú keypt kauphallarsjóði tengda hlutabréfamörkuðum til að dekka bæði sviðin samtímis,“ segir Erik.

Góður kostur fyrir Íslendinga

Að hans mati geta íslenskir fjárfestar átt mikið að sækja til kauphallarsjóða þegar létt verður á fjármagnshöftum en þeir eru nú þegar vinsæll kostur hjá íslenskum lífeyrissjóðum. „Þeir eru ódýr, skilvirk og gegnsæ leið fyrir fjárfesta til að taka stöðu í fjölbreyttum mörkuðum. Á einni sekúndu getur þú sem fjárfestir t.d. tekið stöðu í hlutabréfum í þróuðum mörkuðum svo dæmi séu tekin. Þetta gildir einnig um erlenda fjárfesta sem vilja fjárfesta á Íslandi. Kauphallarsjóðir eru fljótleg leið fyrir þá til að taka stöðu í íslenska hagkerfinu.“

Líkt og áður sagði er aðeins einn kauphallarsjóður starfandi á Íslandi í dag, LEQ, sem stýrt er af Landsbréfum. Ólafur Jóhannsson, sjóðsstjóri sjóðsins, hélt einnig erindi á ráðstefnunni en hann segir að hann hafi gengið mjög vel frá stofnun hans árið 2013. „Íslenski markaðurinn hefur ekki jafn mikinn seljanleika og erlendis,“ segir Ólafur. „Það sem LEQ færir til borðsins er að hann eykur seljanleika fyrir stofnanafjárfesti og ég held að þeir gætu verið mun meðvitaðri um það.“ LEQ endurspeglar OMXI8 capvísitöluna sem NASDAQ OMX Ísland reiknar en inni í vísitölunni eru þau hlutabréf sem hafa besta verðmyndun samkvæmt reglum vísitölunnar. Ávöxtun LEQ hefur verið 55,4% frá stofnun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .