Annað kvöld hyggst SpaceX, fyrirtæki Elon Musk prófa í fyrsta sinn 27 hreyfla Falcon Heavy geimflaug sína, og um borð verður rauð Teslabifreið Elon Musk. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í desember er ætlunin með tilraunafluginu að sýna fram á að félagið geti sent stærri og þyngri gervihnetti út í geim en hingað til hefur verið hægt.

Falcon Heavy eldflaugin samanstendur af þremur 9 hreyfla Falcon 9 eldflaugum fyrirtækisins sem eru sameinaðar í eina stóra eldflaug sem munu skiljast að og lenda á ný hver í sínu lagi eftir geimskotið. Flaugin sem skotið verður á loft frá Cape Canaveral á Florida er þó ekki jafnöflug og Saturn V flaugarnar sem sendu Appolo tunglflaugarnar á loft.

Getur sent þrefalt þyngri farm út í geim en geimskutlurnar

Þær eru heldur ekki jafnöflugar og þurfti til að skjóta geimskutlunum á loft. Kosturinn við flaugar Musk er hins vegar geta þeirra til að lenda á ný og vera endurnýttar aftur og aftur sem gerir hvert geimskot mun ódýrara. Jafnframt munu þær geta lyft mun þyngri farmi út í geim heldur en geimskutlurnar, eða þrisvar sinnum þyngri farmi, því þær sjálfar voru stór hluti af heildarmassanum.

Lyftigeta Falcon Heavy eldflaugarinnar er áætluð 63,8 tonna farmur upp í lægri sporbaug um jörðu, um 26,7 tonn á hærri sporbraut, 16,8 tonn til Mars eða 3,5 tonn til Plúto að því er Daily Mail segir frá. Er þetta um tvöfalt meiri lyftigeta en Delta IV Heavy og Ariane 5 ES eldflaugarnar sem nú eru í notkun segir í frétt CNBC .

Jafnast lyftigetan á við 18 Boeing 747 flugvéla við flugtak, en Musk hefur kallað flaugina tvöfalt öflugri en nokkur önnur eldflaug í notkun í dag. Tesla Roadster bifreið Musk vegur þó ekki nema 1,3 tonn, en hún mun fljúga umhverfis sólina og loks komast á sporbaug um Mars ef áætlun Musk um Rauða Teslu fyrir rauða plánetu gengur eftir. Hér má sjá kynningarmyndband um geimskotið.