*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Innlent 19. júlí 2018 09:33

Sólarkísilverksmiðja enn á teikniborðinu

Silicor Materials stefnir enn að því að reisa sólarkísilver hér á landi. Lífeyrissjóðir, sem eru stórir hluthafar í félaginu, eignuðust kröfu á móðurfélagið til að tryggja réttindi sín. Erlenda móðurfélagið vinnur nú að heildarendurskipulagningu.

Ástgeir Ólafsson
Upprunalega stóð til að sólarkísilverksmiðja Silicor Materials myndi rísa á Grundartanga.

Sunnuvellir slhf., sem stofnað var í kringum fjárfestingu íslenskra lífeyrissjóða og fagfjárfesta í uppbyggingu á sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga, skilaði 804 milljóna króna tapi á síðasta ári samkvæmt ársreikningi félagsins. Frá stofnun félagsins árið 2015 hefur samanlagt tap þess numið rúmlega 1,8 milljörðum króna. Sama ár keypti félagið 32,35% hlut í Silicor Materials Iceland Holding hf. fyrir rúmlega 1,3 milljarða króna en samtals skráði félagið sig fyrir hlutafé upp á 40 milljónir dollara eða tæplega 4,3 milljörðum króna. Tap Sunnuvalla vegna eignarinnar nemur samtals um 1,1 milljarði króna. Var stefna þess félags að reisa sólarkísilver á Grundartanga og átti framkvæmdin að kosta um 900 milljónir dollara í heildina eða um 96 milljarða íslenskra króna.

Í ágúst á síðasta ári var hins vegar fallið frá upprunalegum áformum þar sem ekki tókst að loka fjármögnun á verkefninu. Það voru þó ekki einungis vandræði við fjármögnun sem félagið lenti í því fyrr um sumarið felldu dómstólar ákvörðun Skipulagsstofnunar úr gildi, um að bygging verksmiðjunnar væri ekki háð umhverfismati.

Nýttu sölurétt á innlenda félaginu 

Í ársreikningi félagsins kemur   fram að félagið hafi nýtt sér söluréttarákvæði (e. put-option) í áskriftarsamningi til þess að selja alla eignarhluti í Silicor Materials Iceland Holding til móðurfélagsins Silicor Materials Inc. í Bandaríkjunum. Ekki hefur þó verið gengið frá sölu eignarhlutanna þar sem sem bandaríska móðurfélaginu var veittur frestur til þess að gera heildarendurskipulagningu á starfsemi sinni.

Ómar Örn Tryggvason, stjórnarformaður Sunnuvalla, segir að með nýtingu söluréttarins sé verið að breyta hlutafénu í íslenska félaginu í kröfu á móðurfélagið. „Þegar verið var að semja um verkefnið í byrjun þá var það stefnan að reisa þessa verksmiðju á Íslandi í því formi sem talað var um. Það eru hins vegar aðrir möguleikar við nýtingu á þessum verðmætum. Sölurétturinn var settur inn í upphafi til þess að við gætum nýtt okkur ákveðinn forgang varðandi hugverkaréttindi og aðferðafræði sem varða móðurfélagið.“

Vinna að verkefni erlendis  

Ómar segir að þrátt fyrir að söluréttarákvæðið hafi verið nýtt sé enn unnið að því reisa verksmiðju hér á landi. „Einhver spyr sig líklega hvort við séum að fara út úr innlenda félaginu en það er ekki þannig. Þetta er allt saman hluti af heildarendurskipulagningu móðurfélagsins.

Verksmiðja á Íslandi var og er áhugaverður kostur en það breytir ekki því að það eru mikil verðmæti falin í hugverkaréttindunum og þessari aðferð sem er hægt að nýta annars staðar í heiminum og það erum við að gera. Það er enn verið að skoða byggingu verksmiðju hér á landi þó að fallið hafi verið frá upprunalegum áformum á Grundartanga. Auk þess erum við að vinna að spennandi verkefni erlendis í samstarfi við erlenda aðila og er þetta hluti af því að staðsetja Sunnuvelli rétt varðandi réttindi í því verkefni. Það hefur alltaf verið uppi á borðunum að það yrði farið í starfsemi erlendis. Upphaflegir samningar tóku mið af því og það er hluti af þessu söluréttarákvæði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.