Netverslun Tesla, fyrirtækis athafnamannsins Elon Musk, mun opna í dag fyrir sölu á þakflísum sem framleiða rafmagn.Þetta staðhæfði Musk í tísti á samfélagsmiðlinum Twitter fyrr í dag, en fyrirtækið mun bjóða upp á tvær gerðir af þakflísum sem framleiða rafmagn úr orku sólar. Verða þær annars vegar með hreinni gleráferð og hins vegar með mattri áferð.

Mun fyrirtækið taka við pöntunum alls staðar að úr heiminum, þó fyrstu kaupendurnir sem munu fá afhentar þakflísarnar verða staddar í Bandaríkjunum.

Flísarnar eru nánast óaðgreinanlegar frá hefðbundnum þakflísum, en þær verða með sólarsellur undir gleryfirborði. Munu þær líta út eins og hefðbundnar þakflísar frá flestum sjónarhornum, en þær munu hleypa ljósi í gegnum sig að ofan svo það berist til hefðbundinna sólarsella sem þar eru.

Eftir að Tesla eignaðist SolarCity fyrirtækið í nóvember síðastliðinn, sagði Musk að það muni kosta minna að framleiða þær og koma þeim upp heldur en hefðbundnar þakflísar, jafnvel áður en ábatinn af rafmagninu væri reiknað með. „Rafmagnið er bara bónus,“ sagði Musk að því er segir í frétt Bloomberg .