Íslenska nýsköpunar- og líftæknifyrirtækið KeyNatura, sem notar þörunga til framleiðslu sinnar, hefur nýlega sett fyrstu vörurnar undir eigin merkjum á markað.

KeyNature er þriggja ára gamalt fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu með þörungum, en Sjöfn Sigurgísladóttir er framkvæmdastjóri bæði SagaMedica og KeyNatura. Baldur Ólafsson sér svo um markaðs- og sölumál hjá KeyNatura, en nýlega komu á markað fyrstu vörur síðarnefnda fyrirtækisins, sem dreift er í samstarfi við SagaMedica. Vörurnar nýta efnið astaxanthin sem unnið er úr þörungum, en Baldur segir það vera besta andoxunarefnið sem þekkt sé í heiminum í dag.

„Það hjálpar frumum líkamans að verja sig gegn alls konar oxunarálagi,“ segir Baldur en um er að ræða karótenefni sem gefur ýmsum vatnalífverum rauðan lit og má þar nefna rækjur, humar og lax.

„Efnið er innbyrt í töfluformi og er það til dæmis mikið notað af fólki sem er að fara erlendis í sól, enda getur það komið í veg fyrir sólarexem. Þetta er í raun sólarvörn að innan. Svo eykur það teygjanleikann í húðinni með því að auka vökvann í henni, svo þú fáir minna af hrukkum.“

Niðurstöður fjölmargra rannsókna sýna að efnið sé virkt gegn bólgum, efli þol, styrki hjarta- og æðakerfi ásamt því að hafa jákvæð áhrif á blóðfitu. Baldur segir áhuga á framleiðslu hollustuvara úr þörungum nú vera ört vaxandi í heiminum en KeyNatura sé framarlega í bestu framleiðslutækninni sem til sé í því.

„Við erum kannski annað af tveimur fyrirtækjum sem nota svokallaða tankatækni, en í þessum geira eru í raun þrír meginskólar í því hvernig rækta skuli þörungana, það er tankatækni, svo eru rörakerfi og loks opnar tjarnir,“ segir Baldur sem segir að með þessu sé hægt að ná fram mismunandi miklum gæðum og framleiðni.

„Það sem gerir okkar tækni svona góða er að við erum með lokað kerfi, þannig að engin óæskileg efni komast í þörungana. Við erum með stofna af þörungum sem við ræktum fyrst í tilraunaglösum, síðan eru þeir settir ofan í tankinn og látnir vaxa meira. Hann fær næringu og koldíoxíð sem blásið er inn í tankinn til að hafa hreyfingu á vatninu og með hjálp orkunnar sem hann fær úr ljósakerfinu okkar vex hann og skilur súrefnið frá kolefninu. Þegar vaxtafasanum er lokið þá eru ljósin mögnuð en dregið úr næringunni sem hann fær. Þá byrjar hann að verja sig og verður liturinn í honum rauður því hann fer að framleiða efnið sem við erum að sækjast eftir.“

Félagið var stofnað árið 2014 af nokkrum aðilum með þekkingu úr mismunandi áttum sem tóku í kjölfarið þátt í Startup Energy árið 2015. „Síðan fjárfesti Eyrir Invest í félaginu og tryggði starfsemi þess til lengri tíma og hefur það jafnt og þétt verið að vaxa og dafna og þróa sig áfram, enda tekur tíma að ná tökum á nýrri tækni,“ segir Baldur sem er spenntur fyrir því að nú loksins séu vörur fyrirtækisins komnar á markað.

„Fyrstu vörurnar okkar heita AstaOmega og loks AstaOrka, en sú síðarnefnda er grunnvaran okkar, sem inniheldur hreint astaxanthin. AstaOmega er skemmtileg vara sem inniheldur hvort tveggja astaxanthinið og Omega 3 sem fæst úr öðrum þörungi en síðan erum við að fara að koma með nýtt lýsi á markað, sem heitir Astalysi.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .