„Ég er mjög ósammála þeirri niðurstöðu nefndarinnar að stjórnmálamenn eigi að víkja úr stjórn Orkuveitunnar. Ég skil ekki hvernig þeir komust að þessari niðurstöðu,“ segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur (OR).

Sóley Tómasdóttir (Mynd: DV)
Sóley Tómasdóttir (Mynd: DV)
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Í skýrslu úttektarnefndar um starfsemi OR sem birt var í gær er gagnrýnt að stjórn fyrirtækisins hafi verið vettvangur pólitískra átaka í borgarstjórn á árunum 2002 til loka árs 2010. Eekki virðist hafa verið reynt að ná samstöðu um mikilvæg mál í stjórn OR og að sjaldgæft hafi verið að stefnumótun af hálfu stjórnar hafi leitt til sameiginlegrar niðurstöðu. Þetta er sagt óhefðbundið í rekstri fyrirtækja.

„Nægir hér að líta til þeirra óvenjulegu og umfangsmiklu bókana sem gerðar hafa verið á fundum stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur á umliðnum árum og þeirrar tortryggni sem virðist hafa gætt milli meirihluta og minnihluta stjórnar um einstakar ákvarðanir [...],“ segir í skýrslu úttektanefndarinnar.

Borgarbúar ekki einu sinni sammála um OR

Sóley er á öðru máli. Hún segir í samtali við vb.is:

„Orkuveitan er ekkert annað en almannafyrirtæki. Ef við ætlum að taka það úr lýðræðislegu samhengi þá fyrst erum við komin út á hálan ís. Ég held einmitt að lausnin á vanda OR liggi einmitt í því að auka lýðræðislegt aðhald með fyrirtækinu. Það gerum við ekki með því að fela einhverjum öðrum sem ekki hafa umboð frá borgarbúum að stjórna þessu fyrirtæki,“ segir hún.

Spurð um ósamstöðuna vegna pólitískra átaka í stjórn OR segir hún:

„Já, það hafa verið pólitísk átök. Þau eru til komin vegna þess að borgarbúar eru ósammála um það hvernig eigi að reka fyrirtækið. Borgarbúar veittu fólki sem er ósammála um það hvernig eigi að reka fyrirtækið umboð til að stjórna því og þau átök verða þá að útkljást með gegnsæjum hætti á þeim stöðum þar sem ber að útkljá þau. Það er einmitt á vettvangi stjórnmálanna. Stjórn Orkuveitunnar er alls ekkert frábrugðin menntaráði, skipulagsráði eða þeim ráðum þar sem farið er með grundvallarmálaflokka sem borgarstjórn hefur verið falið að sinna," segir hún.