*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 7. mars 2018 10:04

Sólveig Anna skekur markaðinn

Ávöxtunarkrafa skuldabréfa hækkar og gengi hlutabréfa lækkar skarpt í kauphöllinni í dag. Icelandair lækkar mest.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ávöxtunarkrafa allra skuldabréfa hækkaði um tíma í kauphöllinni í morgun, þó nú þegar þetta er skrifað sé einn flokkur ríkisskuldabréfa með minnkandi ávöxtunarkröfu.

Gengi bréfa í kauphöllinni hefur lækkað skarpt í morgun, og þar af hafa hlutabréf í Icelandair Group lækkað mest, eða um 1,85% þegar þetta er skrifað, en um tíma í morgun nam lækkunin yfir 3%. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær, birti félagið flutningstölur sínar eftir lokun markaða í gær, sem sýna 5% fækkun farþega. Heimildarmenn blaðsins telja að þar hafi einnig áhrif útleggingar greiningardeildar eins viðskiptabankans út frá þessum tölum, þó þeir telji að þar sé verið að draga of víðtækar ályktanir.

Annað sem hefur gerst síðan markaðir lokuðu og gæti haft áhrif að mati heimildarmanna Viðskiptablaðsins er að Sólveig Anna Jónsdóttir vann formannsslaginn í Eflingu, sem gæti þýtt aukna hörku í kjarabaráttu og erfiðari samningum í komandi viðræðum á vinnumarkaði. Heimildarmennirnir telja þó að þarna sé markaðurinn að ofmeta áhrif þess, en  Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,52%, en ekki er um mikil viðskipti að ræða enn sem komið er.

Viðskiptin hafa numið 126 milljónum með bréf Icelandair, 110 milljónir með bréf Marel sem hafa lækkað um 1,54%, en aðalfundur félagsins var í gær, en mestu viðskiptin hafa verið með bréf HB Granda, eða fyrir 158 milljónir en gengi bréfanna hefur staðið í stað.