Stefán Eyjólfsson framkvæmdastjóri CrewApp segir að samningur félagsins um sölu á hugbúnaðarlausn félagsins sé sá þriðji sem félagið gerir við erlend flugfélög að því er fram kemur í Morgunblaðinu . Hin tvö erlendu félögin eru Thomas Cook í Danmörku og Primera Air í Lettlandi, en fyrir hafa öll stóru íslensku flugfélögin tekið snjallforrit fyrirtækisins í notkun.

Segir Stefán það segja sína sögu að enginn af 10 þúsund notendum appsins hafi verið neikvæður í umsögnum sínum um kerfið, en appið er hannað til þess að áhafnir flugfélaganna hafi allar nauðsynlegar upplýsingar við höndina öllum stundum.

Les kerfið sjálfkrafa úr miðlægum flugrekstrarkerfum flugfélaganna, til að mynda um áhafnirnar, flugvélar, flugvelli auk upplýsinga um farþegana. Stefán og Gnúpur Halldórsson markaðsstjóri CrewApp segja að lausnin sé einstök á heimsvísu og geti sparað flugfélögum fjölda stöðugilda.

„Það sem áður þarfnaðist margra handtaka, ótal símtala, póst- og sms-sendinga er nú nóg að uppfæra í appinu og allir fá tilkynningu samstundis,“ segir Gnúpur. Nýjasta viðbótin er sú að nú er hægt að skrá á einfaldan hátt athugasemdir í miðju flugi um mat, sæti eða annan aðbúnað og vistað, sem fari til starfsmanna á skrifstofu.

„Bara þessi sjálfvirka skýrslugerð er gríðarlega mikill vinnusparnaður. Þetta leysir svo mörg vandamál fyrir flugfélög. Það sem áður var leiðinlegt, flókið og erfitt er nú orðið auðvelt og einfalt.“