Íslensk fyrirtæki sem eiga að heita samkeppnisaðilar eru að stórum hluta í eigu sömu hluthafa. Til að mynda eru stærstu eigendur tveggja ráðandi símafyrirtækja landsins, Símans og Vodafone, að miklu leiti þeir sömu.

Líkt og fram kom í síðasta Viðskiptablaði eru alls 40 prósent hlutafjár á íslenskum hlutabréfamarkaði í eigu lífeyrissjóða og þar af leiðandi eru þeir meðal stærstu eigenda margra fyrirtækja. Sjóðirnir búa yfir mikilli fjárfestingaþörf og vegna fjármagnshafta hafa þeir þurft að binda langstærstan hluta eigna sinna hérlendis, meðal annars í hlutabréfum.

Staðreyndin er samt sem áður sú að samkeppni á markaði er jafnvel enn minni en neytendur kunna að halda. Algengt er að á íslenskum mörkuðum ríki fákeppni, þar sem tvö til þrjú fyrirtæki eru markaðsráðandi, en undir eðlilegum kringumstæðum ættu þau fyrirtæki að vera með öllu ótengd hvoru öðru. Annað kemur upp á daginn ef litið er á íslensk hlutafélög sem eiga að vera keppinautar.

Mest áberandi á fjarskiptamarkaði

Síminn var skráður á markað í október 2015 og er félagið að stórum hluta í eigu sömu aðila og samkeppnisaðilinn Vodafone. Þegar 20 stærstu hluthafar hvors félags eru teknir saman kemur í ljós að 12 þeirra eiga hlut í báðum félögum. Þessir 12 hluthafar eiga alls 57,1% hlut í Vodafone og 56,9% hlut í Símanum, sem verður að teljast afar óeðlilegt hjá fyrirtækjum sem eiga að vera helstu keppinautar hvors annars. Í þokkabót eru þrír stærstu hluthafar beggja félaga þeir sömu.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er stærsti hluthafi bæði Vodafone og Símans með 13,7% og 14,3% eignarhluti, Gildi er með 13,3% og 9,2% eignarhluti og LSR (Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins) er með 9,6% og 10,2% eignarhluti. Alls eru sjö af tíu stærstu hluthöfum Vodafone meðal stærstu hluthafa Símans og sömuleiðis eru sjö af tíu stærstu hluthöfum Símans meðal stærstu eigenda Vodafone.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .