Sónar Music Festival hefur verið aflýst í ár en hátíðin átti að hefjast þann 25. apríl næstkomandi í Hörpu. Í tölvupósti frá aðstandendum Sónar til listamanna, sem áttu að koma fram á hátíðinni nú í ár, segir að gjaldþrot Wow sé helsta ástæðan fyrir þessari ákvörðun, að því er kemur fram á Rúv . Ferðaáætlanir bæði tónlistarmanna og gesta hafi raskast verulega vegna Wow og því hafi þurft að blása hátíðina af.

Þeir sem keypt höfðu miða á hátíðina munu fá þá endurgreidda að því að heimildir Reykjavík Grapevine herma. Á hátíðinni í ár áttu að koma fram listamenn eins og Jon Hopkins, Fatima Al Qadiri, Richie Hawtin, GDRN, Orbital og Little Dragon.

Sónar Reykjavík var haldin í fyrsta skipti hér á landi árið 2013 og hefur verið árlegur viðburður í Hörpu þar til nú. Hátíðin hér er útibú Sónarhátíðarinnar í Barselóna þar sem hún var fyrst haldin árið 1994.