Milljarðamæringurinn George Soros hefur hafið afskipti á ný af fjárfestingafélagi sínu og veðjar hann á gull og gegn bandaríska hlutabréfamarkaðnum.

Soros sér tækifæri í því sem hann sér sem komandi vandræði í heimsmarkaðnum, en undanfarin ár hefur hann einbeitt sér að góðgerðarstarfsemi sinni. Hann er jafnframt einn helsti fjárhagslegi bakhjarl kosningabaráttu Hillary Clinton fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

Áhyggjur af Kína og ESB

Hefur Soros áhyggjur af efnahagsþróuninni í Kína, Evrópu og annars staðar. Segir hann Kína þarfnast opnara stjórnmálakerfis til að geta gert nauðsynlegar umbætur á hagkerfi sínu, en hann hefur áhyggjur af því að veikleiki kínverska hagkerfisins hafi verðhjöðnunaráhrif í Bandaríkjunum og restinni af heiminum.

Jafnframt hefur hann áhyggjur af því að Evrópusambandið leysist upp undir þrýstingi af innflytjendastraumi. „Ef Bretland fer úr sambandinu gæti það ýtt undir almenna hreyfingu í þá átt og yrði þá upplausn sambandsins óhjákvæmileg,“ segir hann.

Síðast þegar Soros fór að skipta sér svona mikið af fjárfestingum fyrirtækisins var árið 2007 þegar hann fór að hafa áhyggjur af húsnæðismálum og skiluðu veðmál hans hagnaði uppá um 1 milljarð dala.