Hæstiréttur felldi dóm sinn í gær í máli þar sem reyndi á sekt Sorpu bs. vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu við verðlagningu gagnvart viðskiptavinum fyrirtækisins. Áður hafði Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að Sorpa hefði með ólögmætum hætti mismunað viðskiptavinum sínum með því að veita eigendum sínum, þ.e. sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, og Sorpstöð Suðurlands bs. betri kjör en öðrum viðskiptavinum, s.s. sorphirðufyrirtækjum. Samkeppniseftirlitið lagði 45 milljón króna sekt á Sorpu vegna brotsins.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála og síðar Héraðsdómur Reykjavíkur hafa staðfest þá niðurstöðu. Með dómi Hæstaréttar er héraðsdómurinn staðfestur.

Sorpa fellur undir samkeppnislög

„Hæstiréttur staðfestir í dómi sínum í dag að starfsemi SORPU falli undir samkeppnislög og er þessi niðurstaða í samræmi við álit EFTA-dómstólsins. Jafnframt staðfestir Hæstiréttur að SORPA sé markaðsráðandi fyrirtæki og hafi með ólögmætum hætti veikt samkeppnisstöðu eina keppinautarins á markaði fyrir rekstur flokkunarmiðstöðva, þ.e. Gámaþjónustunnar. Þá staðfestir Hæstiréttur að stjórnvaldssekt SORPU hafi falið í sér hæfileg viðurlög vegna brots fyrirtækisins,“ segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Samkeppniseftirlitið tekur fram að niðurstaða Hæstaréttar feli í sér mikilvæga túlkun á samkeppnisrétti að því er varðar opinber fyrirtæki. „Jafnframt felur dómurinn í sér leiðbeiningu til opinberra fyrirtækja um hvernig haga skuli verðlagningu gagnvart fyrirtækjum sem freista þess að keppa við þau,“ er einnig tekið fram.