Matsfyrirtækið Standard & Poor‘s tilkynnti í gærkvöld hækkun á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands í „A/A-1“ í kjölfar afnáms fjármagnshafta. Horfur eru stöðugar.

Í frétt á vefsíðu fjármálaráðuneytisins er vitnað í tilkynningu S&P:

„Hækkunin kemur í kjölfar þess að aflétt var nánast að fullu því sem eftir var af gjaldeyrishöftum á innlenda aðila sem verið höfðu í gildi frá fjármálakreppunni 2008, og að samkomulagi var náð við eigendur verulegs hluta aflandskrónueigna. Hækkun matsins endurspeglar þá skoðun fyrirtækisins:

  • Líkurnar hafa minnkað á óhagstæðri greiðslujafnaðarþróun sem S&P taldi áður að gæti átt sér stað í kjölfar afnáms hafta.
  • Afnám hafta á innlenda aðila ætti að styrkja aðgengi innlendra aðila að erlendum fjármálamörkuðum auk þess að laða meiri erlenda fjárfestingu til landsins.
  • Aðgerðirnar sem gripið var til bæta einnig sveigjanleika peningastefnunnar.
  • Þótt S&P geri ráð fyrir að lífeyrissjóðir auki fjölbreytni eignasafns síns með auknum erlendum fjárfestingum þá á það ekki að valda þrýstingi á gjaldeyrismarkaði; S&P telur að Seðlabanki Íslands ráði yfir nægilegum tækjum til þess að hafa stjórn á mögulegu gjaldeyrisútflæði.“