Capacent spáir 0,1% hækkun á vísitölu neysluverðs í október. Ef spá fyrirtækisins gangi eftir þá mun 12 mánaða verðbólga hækka úr 1,8% í 1,9%. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Capacent.

Gera ráð fyrir hækkun á fasteignaverði

Fasteignaverð hefur hækkað um 12,2% síðastliðna 12 mánuði, segir í tilkynningunni.  „Fasteignaverð hækkaði mikið í sumar eða um 5,4% samkvæmt mælingu Þjóðskrár Íslands. Að öllu jöfnu dregur úr veltu og verðhækkunum á fasteignamarkaði á haustin.

Tölur um veltu á fasteignamarkaði gefa til kynna að engin breyting sé þar á og gerir Capacent ráð fyrir 0,9% hækkun fasteignaverðs sem hefur 0,14% áhrif á vnv til hækkunar í október. Auk hærra fasteignaverðs er gert ráð fyrir hækkun leiguverðs og viðhaldskostnaðar.  Samtals gerir Capacent ráð fyrir að fasteignaliður vísitölu neysluverðs hafi 0,18% áhrif á vísitöluna,“ kemur einnig fram.

Útsölur í verslunum

Capacent gerir ráð fyrir verðlækkun á bifreiðum, raftkjum og húsgögnum en verð allra vöruflokka er lægra nú en fyrir 12 mánuðum. Samtals munu framangreindir liðir hafa 0,05% áhrif á til lækkunar vnv.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað

„Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað um 9% frá lokum september og var verð hráolíu tunnunnar um 53,4 dollarar þann 10. október. Verð á díselolíu hefur hækkað um 1% frá síðustu verðbólgumælingu en verð bensíns hefur staðið í stað.

Capacent gerir ráð fyrir 1% hækkun á eldsneytisverði en verð á olíu hefur verið á mikilli siglingu.  Eldsneytisverð mun hafa 0,03% áhrif á vnv til hækkunar,“ segir í tilkynningunni.