Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs lækki um 0,2% í júlí frá fyrri mánuði. Gangi sú spá eftir verður 12 mánaða verðbólgan 2,4% og fer þar með niður fyrir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Þá kemur einnig fram að útlit sé fyrir að verðbólgan verði 2,8% að jafnaði í lok þessa árs og að verðbólgunhorfur til meðallangs tíma séu svipaðar og í síðustu spá.

Í greiningunni kemur fram að áhrif útsalanna á spána fyrir júlímánuð verði talsverð. Þá er talið að verðlækkun á fötum og skóm hafi áhrif til 0,40% lækkunar á vísitölu neysluverðs og húsgögn hafi áhrif til 0,07% lækkunar.

Hægt hefur á hækkun íbúðaverðs og útlit er fyrir nokkra lækkun á verði á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu. Nokkuð er farið að hægja á hækkunartakti íbúðaverðs frá því hann var hvað hraðastur á fyrri helmingi ársins 2017. Reiknuð húsaleiga vegur 0,04% til lækkunar á vísitölu neysluverðs.

Samkvæmt spánni munu flugfargjöld hafa áhrif til 0,2% hækkunar vísitölu neysluverðs og eldsneytisverð vegi til 0,03% hækkunar.

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni aukast lítillega á næstu mánuðum og samkvæmt því mun verðbólgan mælast um 2,5% í októbermánuði.