Arion banki spáir því að vísitalan neysluverðs hækki um 0,6% milli mánaða í febrúar. Þetta kemur fram í Markaðspunktum Arion banka sem voru birtir í dag. Ef spá Arion banka gengur eftir mun ársverðbólga lækka úr 2,1% í 2%.

Einu liðirnir sem munu lækka í mánuðnum samkvæmt spá bankans eru flugfargjöld til útlanda og eldsneytisverð. Aðrir liðir munu hækka og mestu máli skiptir að útsöluáhrif ganga til baka. Auk þess mun húsnæðisverð hækka, auk verðs á mat og drykk.

Bankinn áætlar að verðlag muni hækka um 0,5% í mars, 0,3% í apríl og 0,1% í maí. Samkvæmt þeim spám mun ársverðbólga mælast 1,5% í maí, en hún mældist 2,1% í janúar.