*

mánudagur, 25. mars 2019
Innlent 16. október 2018 10:40

Spá 2,8% verðbólgu í október

Greinendur Íslandsbanka spá því að verðbólgan verði 3,5% í lok þessa árs og muni að jafnaði verða 3,5% á árinu 2019.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Norðurturni.
Haraldur Guðjónsson

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að vístala neysluverðs muni hækka um 0,5% í október frá fyrri mánuði. Þetta kemur fram í frétt á vef bankans. Sé miðað við spána mun verðbólga í mánuðinum aukast úr 2,7% í 2,8%. Meðal hækkunarliða er matvara, húsnæði, eldsneyti og flugfargjöld. Greinendur spá því að verðbólgan verði 3,5% í lok þessa árs og muni að jafnaði verða 3,5% á árinu 2019.

„Segja má að margt smátt geri eitt allstórt í spá okkar fyrir mánaðabreytingu VNV í október. Enginn einn liður vegur til afgerandi hækkunaráhrifa en verðlag virðist vera að þokast nokkuð almennt upp á við. Gengislækkun krónu frá septemberbyrjun er þar mikilvægur áhrifaþáttur, ekki síst á verð matvöru, eldsneytis og annarra liða þar sem lagertími er tiltölulega stuttur," segir í fréttinni. 

Greinendur bankans áætla að verð á mat og drykk muni hækka um 0,9% í október og er verðhækkun á innfluttum mat talin helsta ástæðan fyrir hækkuninni. 

Í greiningunni segir jafnframt að ásamt óvissu um stefnu krónunnar á komandi fjórðungum liggur óvissa spárinnar að miklu leyti í tveimur þáttum: Annars vegar gætu laun hækkað hraðar en hér er spáð, en hins vegar gæti dregið meira úr hækkunartakti íbúðaverðs en gert er ráð fyrir í þessari spá.