Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,5% á milli mánaða í mars. Gangi spáin eftir fer verðbólga úr 4,8% í 4,3%. Greiningardeildin segir útlit fyrir að verðbólga verði í kringum 4% næstu misserin.

Í Morgunkorni greiningardeildarinnar segir m.a. að útsölulok hafi talsverð áhrif á vísitölu neysluverðs í mars. Áhrifin verði þó líklega með minna móti nú vegna þess hversu sterk þau voru í febrúar.

Í Morgunkorninu segir orðrétt:

„Verðbólguhorfur næstu mánaða hafa batnað nokkuð eftir ríflega 4% styrkingu krónunnar frá miðjum febrúar. Spá okkar gerir ráð fyrir að krónan haldist á svipuðum slóðum fram eftir ári, og ef sú verður raunin gætu áhrifin komið nokkuð fljótt fram í verði á ýmsum innfluttum vörum. Við spáum 0,4% hækkun VNV í apríl og 0,3% hækkun í maí. Verðbólga hjaðnar samkvæmt því niður í 3,9% í maí. Spáin fyrir þessa tvo mánuði er í raun frekar tíðindalítil, þar sem árstíðaráhrif og fyrrnefnd krónuhreyfing vega hvað þyngst.“