Ef spá Íslandsbanka um íslenskan íbúðamarkað gengur eftir mun íbúðaverð hækka um 8,1% á þessu ári, 7,9% á næsta ári og um 7,5% á árinu 2017.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Greiningar Íslandsbanka um stöðu íbúðamarkaðarins sem kynnt var í menningarhúsinu Hofi á Akureyri í gær. Að raunvirði nemur þessi hækkun 6,3% á þessu ári, 5,1% á næsta ári og 3,8% á árinu 2017.

Bætt fjárhagsstaða heimilanna m.a. vegna hraðs vaxtar í kaupmætti launa mun drífa hækkun íbúðaverðs á næstunni að mati Greiningar Íslandsbanka. Þar kemur einnig fram að íbúðaverð hefur hækkað mest á höfuðborgarsvæðinu og Vestfjörðum frá árinu 2010 eða um 40,2% og 36,5%. Á Suðurnesjum hefur íbúðaverð hækkað minnst á sama tímabili eða um 4,5%.