Fjármálafyrirtækið UBS hefur hækkað 12 mánaða spá sína um vöxt Amazon upp í 1.300 dali hver hlutur, en í dag fæst hvert bréf félagsins á 1.012,55 dali, eftir 1,07% hækkun síðan markaðir opnuðu að því er CNBC segir frá.

Fyrri spá svissneska fjármálafyrirtækisins var að gengi bréfa félagsins næði 1.100 dölum. Jafnframt lýsti fyrirtækið þeim möguleika að á næstu 12 mánuðum gætu bréf fyrirtækisins vaxið um allt að 60% og þannig komist upp fyrir Apple í markaðsvirði innan árs.

Eric Sheridan, greinandi hjá UBS segir að sviðsmyndin um að ná 1.600 dölum á hlut byggi á enn meiri aukningu sölu heldur en bæði hann og fjármálamarkaðir almennt búist við.

„Slík uppsveifla gæti byggst á því að: 1) sala á Prime áskrifendum aukist hraðar en búist er við, 2) árangri á nýjum markaðssvæðum og nýjar vörulausnir innan vefsölunnar ,3) almennt betri sala og/eða 4) lítill árangur í sölu vefþjónustu frá Apple og Google,“ sagði Sheridan.

Hlutabréf Amazon hafa hækkað um 34% á árinu, en í síðasta mánuði tilkynnti félagið um kaup á Whole Foods matvörukeðjunni fyrir 14,7 milljarða. Á árlegum Prime degi félagsins jókst salan um 60% frá því á sama tíma í fyrra og bættust fleiri í sérstaka Prime áskriftarþjónustu fyrirtækisins en á nokkrum degi áður í sögu fyrirtækisins.