Greiningardeild Arion banka lagði nýtt ferðamannaspá sína fyrir árin 2018 og 2019 til lækkunar í nýrri hagspá sinni sem ber yfirskirftina Er toppnum náð? Hefur það vakið talsverða athygli. Greiningardeildin bendir á þetta í nýjum Markaðspunktum sínum.

„Til nánari útskýringar þá er um að ræða lækkun á spá sem birt var í ferðaþjónustuskýrslunni okkar sem kom út síðastliðinn september,“ segir þar. Greiningardeildin lækkaði spána nokkuð, til að mynda úr 12,9% árið 2018 niður í 7% Þetta þýðir að ferðamönnum muni fjölga um rúmlega 160 þúsund manns árið 2018, en ekki um 287 þúsund líkt og við áætluðum í september, sem er álíka fjölgun einstaklinga og var árið 2013 og 2014, þó hlutfallslega sé fjölgunin miklu minni en allra síðustu ár. Bankinn spáir þó áfram 26% fjölgun á þessu ári.

Miðað við nýja spá bankans gera þau ráð fyrir að erlendum ferðamnönnum fjölgi um 35% milli áranna 2016 og 2018, eða ríflega 620 þúsund. „Augljóslega sjáum við því ekki fram á samdrátt í ferðaþjónustu. Við teljum einfaldlega að vöxturinn fari að verða eðlilegri og að nú mæti hún nokkrum mótvindi en hafi ekki lengur stanslausan meðvind,“ tekur greiningardeild Arion banka fram. En stóra spurningin er hvers vegna? Greiningardeildin fer yfir nokkrar ástæður þess í yfirlitinu.

Ísland: Eitt dýrasta land í heimi

Raungengi íslensku krónunnar hefur hækkað um tæp 10% frá því að Arion banki birtist síðustu ferðamannaspá sína, sem samsvarar því að kostnaður erlendra ferðamanna við að dvelja á Íslandi er 10% hærri en hann var síðastliðið haust. „Hingað til hefur reynst erfitt að greina áhrif sterkari krónu á ferðaþjónustuna, enda hafa komur erlendra ferðamanna veldisvaxið á sama tíma og krónan hefur verið í miklum styrkingarfasa. Á síðustu mánuðum hafa þó komið fram skýrari merki þess efnis að krónan og verðlag hafi vissulega áhrif á hegðun ferðamanna. Neysla á hvern ferðamann í krónum talið hefur t.d. dregist saman og dregið hefur verulega úr vexti kortaveltu á hvern ferðamann í erlendum gjaldeyri,“ segir í greiningunni.

Samkvæmt hagspá Arion banka mun raungengið halda áfram að styrkjast fram til ársloka 2018, sem þýðir að enn dýrara verður fyrir erlenda ferðamenn að dvelja á Íslandi. Að mati bankans munu áhrif þessa koma fram með talsverðri töf, þar sem að margir ferðamenn hafi nú þegar skipulagt sumarfríið sitt. Einnig hefur flugframboð til landsins haldið áfram að aukast.

Bólsetja gegn hollensku veikinni

Greiningardeild Arion gerði hugtakið hollensku veikna (e. dutch disease) að umræðuefni í ferðaþjónustuskýrslu sem þau gáfu út síðastliðið haust, en það á við þegar ein flutningsgrein stækkar mun hraðar en aðrar svo að gengið styrkist, sem kemur sér illa fyrir aðrar útflutningsgreinar. Nú virðist vera að spá Arion banka sé að raungerast, enda hefur sterkara gengi farið að þrengja að öðrum útflutningsgreinum.

„Ríkisstjórnin hefur boðað sérstakar aðgerðir til að stemma stigu við styrkingu krónunnar. Þær aðgerðir sem hefur nú þegar verið tilkynnt um virðast fyrst og fremst snúa að því að hækka kostnað erlendra ferðamanna á Íslandi. Fyrstu skrefin í þá átt voru kynnt á föstudag sl. en 1. júlí 2018 mun virðisaukaskattur á flestar tegundir ferðaþjónustu verða hækkaður. Til viðbótar má benda á umræðu um gjaldtöku og aðra aðgangsstýringu, umræðu um vegatolla og fleira sem er til þess fallið að hækka kostnað við Íslandsheimsókn erlendra ferðamanna,“ bendir greiningardeildinni á í greiningu sinni.

Þarf stórkostlega uppbyggingu

Nýting á gistirými á höfuðborgarsvæðinu er í sögulegu hámarki og var nýting hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu til að mynda 96% nú í febrúar. „[..] vandséð hvernig jafnkraftmikil fjölgun og er nú að eiga sér stað getur haldið áfram fram á næsta ár nema með stórkostlegri uppbyggingu gistirýmis. Hún þarf að gerast á sama tíma og mikill kraftur er að færast í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, samgöngumannvirkja og ýmissa annarra innviða sem setið hafa á hakanum. Samkeppni um vinnuafl og önnur aðföng til uppbyggingar mun líklega leiða af sér enn frekari þrýsting á verðlag til erlendra ferðamanna – og auðvitað hækkun á verði þess gistirýmis sem fyrir er,“ segir í greiningunni.

Greiningardeild Arion banka bendir á að vöntun á íbúðarhúsnæði eykst með hverjum degi á suðvesturhorni landsins og settar hafa verið reglur sem eiga að stemma stigu við leigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna. Í ljósi stöðunnar á húsnæðismarkaði og viðbrgaða ýmissa stjórnmálamanna teljum við ekki ólíklegt að það verði settar enn frekari takmarkanir á gistimöguleika á við Airbnb sem myndi takmarka verulega að gistirýmum geti fjölgað áfram til að taka á móti tugprósenta vexti í ferðaþjónustu, að mati Arion banka.

Mikilvægi flugframboðs

Síðastliðinn janúar benti Icelandair á að skyndileg neikvæð þróun hafi átt sér stað í bókunarkerfi félagsins - sem að sumir kölluðu Trump-áhrifin. Bandarískir ferðaskipuleggjendur höfðu svipaða sögu að segja.

„Ef hægir á eða dregur úr farþegaflugi milli Evrópu og Norður-Ameríku getur það haft veruleg áhrif á Ísland sem áfangastað yfir hafið. Þá hefur afkoma alþjóðlegra flugfélaga versnað eftir gríðarlega framboðsaukningu síðustu árin. Flestar spár virðast gera ráð fyrir versnandi afkomu flugfélaga í heiminum og að laga þurfi flugfargjöld að auknu framboði eða draga tímabundið úr framboði en flugframboð til Íslands skiptir höfuðmáli fyrir innlenda ferðaþjónustu,“ er tekið fram.

Ómögulegt að segja til

Greiningardeildin segir þó að það sé nær ómögulegt að segja til um með mikilli nákvæmni hversu margir ferðamenn munu sækja landið heim í framtíðinni eins og reynsla af spám greiningaraðila um fjölda ferðamanna sýnir glögglega.

„Miðað við þróunina síðustu ári og sveiflurnar í fjölda ferðamanna áratugina á undan er eiginlega óðs manns æði að vera að spá fyrir um þessa þróun yfir höfuð, en við reynum, enda er ferðamennskan sífellt mikilvægari þáttur í íslensku efnahagslífi. Það er einnig mögulegt að hver ferðamaður eyði einfaldlega færri krónum og/eða dvelji að meðaltali skemur sem hefði þá sambærileg áhrif á tekjur og ef um færri ferðamenn væri að ræða.

Þá kann að vera að við séum hrapallega að vanmeta kraftinn í ferðaþjónustunni, annað eins hefur gerst, enda óvissuþættirnir margir. Olíuverð gæti lækkað, flugfargjöld haldist lág, krónan gæti veikst og fjölgun farþega frá nýjum áfangastöðum gæti bætt upp hægari vöxt annars staðar, en allt myndi þetta stuðla að frekari vexti í komum erlendra ferðamanna til landsins. Þá er afkastagetan á Keflavíkurflugvelli enn að aukast og bæði WOW air og Icelandair að stækka flota sína. Það sem við sjáum hins vegar er að krónan, pólitískar ákvarðanir og umræða hafa snúist ferðaþjónustunni í óhag. Í ljósi þess hefur spá okkar um fjölda ferðamanna árin 2018 og 2019 lækkað,“ segir að lokum.