Yngvi Harðarson hjá ráðgjafafyrirtækinu Analytica hefur sent frá sér hagvísi fyrirtækisins sem hækkaði í janúar, sjötta mánuðinn í röð. Nam hækkunin nú 0,3%, sem er þó nokkru minni hækkun en undanfarna mánuði en hækkunin hefur numið 0,5 til 0,8% síðan í ágústmánuði. Ef horft er á breytinguna frá því í janúar fyrir ári síðan nemur hækkunin 2,8%.

Gefur vísitalan því vísbendingu um að hagvöxtur verði yfir langtímaleitni næstu mánuði, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun er að draga hraðar úr hagvexti hér á landi en spáð hafði verið að mati SA.

Þó hækkunin sé minni en áður hækka samt sem áður allir sex undirliðirnir frá því í desember, en þeir eru aflamagn, debetkortavelta, ferðamannafjöldi, heimsvísitala hlutabréfa, innflutningur og væntingavísitala Gallup.

Er vísitölunni ætlað að mæla aðdraganda framleiðslu að eftir hálft ár, en þættirnir eru valdir út frá því að þeir mæla upphaf framleiðsluferlisins. Þeir óvissuþættir sem helst eru nefndir til sögunnar sem gætu ógnað hagvextinum tengjast annars vegar stöðunni í alþjóðastjórnmálum en hins vegar í kjaramálum innanlands.