Greiningardeildir viðskiptabankanna þriggja - Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans - spá því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki í maí frá fyrri mánuði. Hagfræðideild Landsbankans og Greining Íslandsbanka spá 0,4% hækkun VNV, en Greiningardeild Arion banka spáir 0,3% hækkun. Hagstofa Íslands birtir VNV mánudaginn 29. maí.

Þá spáir IFS Greining 0,3% hækkun VNV milli mánaða.

Gangi spá Landsbankans og Íslandsbanka eftir mun ársverðbólgan í maí standa óbreytt í 1,9%, en gangi spá Arion banka eftir mun hún lækka í 1,8%.

Það sem ræður mestu um verðbólguhorfur næstu mánuðina eru þróun húsnæðisverðs og gengi krónunnar, að mati greiningardeilda bankanna.

Húsnæðisliður VNV verður líkt og undanfarið hæsti hækkunarvaldurinn í maí. Greiningardeildirnar spá u.þ.b. 2% hækkun á húsnæðisverði í maí.  Aðrir þættir til hækkunar VNV í mái eru hækkanir í verði á þjónustu hótela og veitingastaða, sem ganga nú í gegnum árstíðabundna sveiflu vegna upphafs háannatíma ferðaþjónustunnar, og mat og drykk. Þá munu flugfargjöld, eldsneyti, föt og húsbúnaður hafa áhrif til lækkunar.

Greiningardeildirnar gera ráð fyrir áframhaldandi gengisstyrkingu næstu mánuði vegna ferðamannafjöldans sem streymir til landsins, viðskiptakjarabata og gengisstyrkingar krónunnar frá losun fjármagnshafta í mars sl.