Í kvöld verða Óskarsverðlaunin afhent í 89. skipti. Greiningardeild Arion banka spáir fyrir því hvaða mynd sé líklegust til að að hreppa gullstyttuna eftirsóknarverðu þetta árið, með hjálp hagrannsókna. Að þessu sinni spáir Greiningardeildin að kvikmyndin La La Land hreppi styttuna samkvæmt því líkani sem notað er.

Í ár eru níu kvikmyndir tilnefndar: Arrival, La La Land, Fences, Lion, Hacksaw Ridge, Manchester by the Sea, Hell or High Water, Moonlight og Hidden Figures.

„Þó svo að kvikmyndagerð eigi vissulega meira skylt með listum en hagfræði, þá stoppaði það ekki hagfræðinginn Andrew B. Bernard árið 2005 í að útbúa nokkuð skemmtilegt og einfalt probit-líkan til þess að spá fyrir um sigurvegara hátíðarinnar. Bernard rannsakaði fjöldann allan af breytum og forspárgildi þeirra á árunum 1984 til 2004, en breyturnar byggðu annars vegar á frammistöðustikum (t.d. velgengni á verðlaunahátíðum) og hins vegar á einkennisstikum (t.d. hvort myndin byggði á bók eða leikriti, hvort aðalhlutverkið deyi ótímabærum dauða eða setjist á hestbak). Eins og svo oft áður þá reyndist einfaldasta líkanið vera með mestu spágetuna:

Sjá módelið í greiningu Arion banka.

Með þessu líkani gat Bernard því metið sigurlíkur hverrar myndar út frá fjölda Óskarstilnefninga og fjölda Gullhnatta (e. Golden Globes), eftir að hafa leiðrétt fyrir gamanmyndum því að fullkomin fylgni var á milli þess að vera gamanmynd og að tapa á Óskarnum. Reiknað afturvirkt reyndist spágeta líkansins á þeim tíma vera 90%, þ.e. það spáði rétt fyrir í 18 af 20 skiptum.

Þegar á reyndi klikkaði líkan Bernard hins vegar í fyrstu tilraun þegar að The Aviator (spá Bernard) laut í lægri haldi fyrir Million Dollar Baby árið 2005. Líkan Bernard hefur ekki riðið feitum hesti síðan og hefur aðeins fimm sinnum spáð rétt fyrir um sigurvegara hátíðarinnar. Það má því vera að Akademían sé orðin ófyrirsjáanlegri en áður, en einnig var gerð róttæk breyting á talningu atkvæða fyrir bestu mynd í kjölfar þess að fjöldi tilnefndra mynda jókst verulega árið 2009, sem kann að hafa dregið úr spágetu líkansins. Þá virðist einnig vera að gjáin milli Akademíunnar og erlendra blaðamanna hafi breikkað á undanförnum árum þar sem jaðaráhrif auka Gullhnattar hafa minnkað verulega, eins og sjá má á myndinni að neðan. Þetta undirstrikar vandkvæði tölfræðilíkana við spágerð; þau byggja á sögulegu samhengi sem þarf ekki endilega að eiga enn við rök að styðjast,“ segir í greiningu Arion banka.

Dansa með Óskarinn heim

Samkvæmt greiningunni sem framkvæmd er á La La Land sigurinn vísan samkvæmt nýja líkani Greiningardeildarinnar, og gamla líkaninu líka sem og uppfærðu líkani Bernand.

La La Land hefur unnið til fjölmargra verðlauna, fékk í heildina 13 Óskarstilnefningar og sjö Gullhnetti, flesta í sögu hátíðarinnar. Samkvæmt nýja líkani Greiningardeildarinnar þá eru 81,9% líkur á því að La La Land sigri og 14,7% líkur á því að Hidden Figures sigri.