Atvinnuleysi í Bandaríkjunum gæti farið enn meira niður á næsta ári en þegar hefur orðið í landinu og gæti það farið niður fyrir mörk sem það hefur ekki gert í 50 ár.

Hlutabréf bandarísku stórfyrirtækjanna Facebook, Microsoft og Amazon tóku jafnframt í dag stærsta stökk á einum degi í kauphöllum vestanhafs, sem og hlutabréf í Apple og móðurfélagi Google, Alphabet knúðu S&P og Nasdaq hlutabréfavísitölurnar upp.

Einnig hækkuðu bréf ýmissa iðnfyrirtækja sem höfðu lækkað í gær eftir að ríkisstjórn Donald Trump Bandaríkjaforseta birti lista yfir innflutningsvörur frá Kína að andvirði 200 milljóna, 25.500 milljarða króna, sem yrðu tollaðar.

Hefnd fyrir hefnd

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá voru tollarnir ætlaðir til að svara fyrir að Kínverjar höfðu svarað strax tollum sem Bandaríkin settu á kommúnistalandið í sömu mynt. Nýju tollarnir nema meiri innflutningi en Kína flytur inn í heildina árlega frá Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir áhyggjur af tollastríði hefur atvinnuleysi í Bandaríkjunum ekki verið lægra í mörg ár.Í júnímánuði nam atvinnuleysið 4% eftir að hafa farið allt niður í 3,8% í maí, en hagfræðingar sem svöruðu könnun um málið telja að það geti farið allt niður í 3,7% í lok þessa árs og 3,6% um mitt næsta ár.

Skattalækkanir og aukin ríkisútgjöld

„Við munum sjá meiri eftirspurn eftir vinnuafli vegna skattalækkana og aukinna ríkisútgjalda á þessu ári og inn í árið 2019, svo fyrirtækin munu halda áfram að ráða,“ segir Gus Faucher aðalhagfræðingur PNC Financial Services Group.

Þegar atvinnuleysið náði 3,8% í maí mánuði hafði það ekki verið lægra síðan í apríl árið 2000, en það hefur hins vegar ekki farið niður fyrir þá tölu síðan í desember 1969 þegar það var 3,5%. Síðan byrjað var að birta atvinnuleysistölurnar árið 1948 var atvinnuleysið lægst í maí og júní árið 1953, eða í 2,5% en atvinnuleysið fyrir árið 1944 á hátindi seinni heimstyrjaldarinnar nam 1,2%.

Gæti dregið fleiri inn á vinnumarkaðinn

Jerome Powell seðlabankastjóri Bandaríkjanna sagði í ræðu í lok júní að þó hætta væri á aukinni verðbólgu og jafnvel fjárhagslegum óstöðugleika ef eftirspurnin héldi áfram að aukast svona mikið gæti hann einnig skilað varanlegum ábata. Þar með talið að mikil eftirspurn eftir vinnuafli gæti dregið fleira fólk inn á vinnumarkaðinn, en hagfræðingarnir taka undir það.

„Það er von til þess að þátttakan muni aukast með rauðglóandi vinnumarkaði,“ segir Constance Hutner aðalhagfræðingur KPMG. „Ef það gerist er von til þess að það muni draga úr verðbólguáhrifum.“ Könnunin var gerð af WSJ meðal 63 hagfræðinga í fyrirtækjum, fjármálageiranum og í háskólasamfélaginu.