Greiningardeild Arion banka spáir því að Leonardo DiCaprio og kvikmyndin The Revenant verði sigursæl á óskarsverðlaunahátíðinni á sunnudaginn. Greiningardeildin reynir að beita verkfærum hagfræðinnar við spá sína, en tekur það reyndar fram að árangur hennar síðustu tvö ár hafi verið „arfaslakur“.

„Í fyrra skiptið, árið 2012, spáðum við jöfnum slag á milli Lincoln og Les Misérables, en gáfum sigurmyndinni Argo lítinn gaum. Ári seinna stóð 12 Years a Slave uppi sem sigurvegari en við höfðum spáð að Gravity myndi taka slaginn.“

Í ljósi þess hve illa hefur tekist til að spá fyrir um sigurmyndina hefur greiningardeildin ákveðið að skipta um gír og taka nýtt líkan til notkunar. Staðreyndin sé sú að gamla líkanið hafi staðið sig mun verr við að spá fyrir um sigurvegara Óskarsverðlaunanna upp á síðkastið en það gerði þegar það kom fyrst fram á sjónarsviðið.

„Þetta endurspeglar helsta vandann við notkun tölfræðilíkana við spágerð, en þau nýta tölfræðileg sambönd fortíðarinnar til að spá fyrir um framtíðina, óháð því hvort sambandið eigi ennþá við rök að styðjast. Þannig virðist hafa dregið í sundur með akademíunni og erlendum blaðamönnum þar sem viðbótar Gullhnöttur hefur síður afgerandi áhrif en áður. Kannski er akademían orðin ófyrirsjáanlegri en áður og kannski skiptir máli að tilnefningum var fjölgað úr fimm í allt að tíu árið 2009, við ætlum svo sem ekki að leggja mat á það hér,“ segir í spá Greiningardeildar.

Skemmst er frá því að segja að því er spáð að myndin The Revenant muni hljóta verðlaunin sem besta kvikmyndin og eru 64,5% líkur taldar á því. Hið nýja líkan byggir á fjórum frammistöðustikum: fjölda tilnefninga til Óskarsverðlauna, fjölda Gullhnatta, fjölda BAFTA (e. the British Academy of Film and Television Arts) verðlauna og hvort myndin hafi hlotið SAG-verðlaunin (e. Screen Actors Guild Awards) fyrir besta leikhópinn.

Þá bendir til þess að mati greiningardeildar að Leonardo DiCaprio, fyrir leik sinn í The Revenant, og Brie Larson, fyrir leik sinn í Room, haldi heim með gullstyttuna eftirsóttu, en þegar kemur að sigurlíkum bera þau höfuð og herðar yfir aðra keppendur.