Þó kaupmáttur hafi aukist talsvert á yfirstandandi ári hefur verulega dregið úr aukningunni frá því að hún var hvað hröðust fyrir tæpu ári síðan.

Vaxandi kaupmáttur mun þó halda áfram að ýta undir einkaneysluvöxt í ár líkt og í fyrra þó hann verði væntanlega hóflegri í ár að mati Greiningar Íslandsbanka.

Hefur launavísitalan hækkað um 5,5% undanfarna 12 mánuði, sem er lækkun frá 8,7% árshækkun frá í janúar, en það skýrist af því að áhrif kjarasamninga ASÍ og SA í ársbyrjun 2016 detta nú út úr 12 mánaða mælikvarðanum.

4,5% launahækkun í maí

Bendir bankinn á að væntanlega muni bætast í ársmeðaltalið með vorinu þegar stór hluti launþega á almennum markaði fær 4,5% samningsbundna launahækkun í maímánuði. Síðan losna samningar ýmissa stétta opinberra starfsmanna þegar líður á árið.

Í febrúar mældist 3,5% ársmeðaltal kaupmáttaraukningar en í janúar hafði það mælst 6,7%, miðað við 12 mánaða tímabil. Hefur aukningin ekki verið hægari síðan í júní árið 2014. Einnig telur bankinn að bætist í aukningu kaupmáttar á árinu og verði að jafnaði um 4,5% frá síðasta ári.

Óvenju mikil kaupmáttaraukning í fyrra

Á síðasta ári nam aukningin þó 9,5% að jafnaði en bankinn segir það óvenjulega mikið enda hafi árleg kaupmáttaraukning síðustu 20 ára þar á undan numið 2,1% að jafnaði, sem sé í takti við algenga þróun í þróuðum ríkjum.

Því sé að að því er segir í greiningu bankans 15% samanlögð aukning kaupmáttar launa á aðeins tveimur árum harla góð.

Kaupmáttur aukist hraðar en neysla

Jafnframt virðist kaupmáttur launa hafa aukist talsvert hraðar en einkaneysla á síðasta ári miðað við bráðabirgðatölur Hagstofunnar, og sé munurinn enn meiri ef miðað er við einkaneyslu á mann.

Fjölgaði landsmönnum um 1,7% í fyrra en á sama tíma fjölgaði fólki á vinnumarkaði um 2,7% svo það virðist sem heimilin hafi lagt fyrir einhvern hluta af auknum kaupmætti í fyrra.

Neysla fyrir hrun fjármögnuð með lánsfé

Hins vegar var þróunin þveröfug þegar neyslugleði landsmanna var hvað mest fyrir um áratug síðan, en á árunum 2004 til 2008 jókst hún mun hraðar en nam aukningu kaupmáttar, svo hún var fjármögnuð í sívaxandi mæli með lánsfé

Spáir bankinn að einkaneysla verði hægari en sú 6,9% aukning sem mældist í fyrra, en þó sé líklegt að 5,5% vöxtur einkaneyslu sem bankinn setti fram í þjóðhagsspá sinni frá í haust sé líklega hófleg fremur en hitt.