Greiningardeild Arion banka og Greining Íslandsbanka fjalla báðar um ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands frá í morgun um að halda stýrivöxtum óbreyttum.

Báðir bankarnir segja ákvörðunina í takt við sýna spá sem og röksemdina fyrir spánni, en Arion banki segir í ákvörðuninni megi greina talsverða varfærni nefndarinnar og áherslu á aðhaldssama peningastefnu vegna mikils uppgangs í hagkerfinu.

Báðir bankarnir vísa í orð nefndarinnar um að vegna traustari kjölfestu verðbólguvæntinga og hækkunar gengis krónunnar sé hægt að ná verðstöðugleika við lægri vaxtastig en ella, og segir Arion banki þessi orð sýna að ekki sé loku skotið fyrir frekari vaxtalækkanir á árinu.

Íslandsbanki segir þó framsýna leiðsögn nefndarinnar vera áfram hlutlausa og að aðhaldsstig peningastefnunnar muni ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.

Arion spáir meiri verðbólgu en SÍ

Arion banki segir það athyglisvert að Seðlabankinn spái verðbólgu sem sé innan við hálfu prósentustigi frá markmiði nánast allt spátímabilið til ársins 2020, sem hafi sjaldan verið raunin.

Spá Arion banka er nokkuð brattari en þeir spá 2,4% verðbólgu í ár, meðan Seðlabankinn hafi fært sína spá niður í 2,1% verðbólgu fyrir árið í ár, meðan hún hafi verið spáð 2,35 í nóvember.

Íslandsbanki kallar verðbólguspá Seðlabankans töluvert bjartsýna með spám 2,5% verðbólgu á næsta ári og 2,8% verðbólgu árið 2019.

Spá bankans geri ráð fyrir ríflega 3% styrkingu krónunnar á ári sem haldi aftur af verðbólguþrýstingi þrátt fyrir að laun á hverja framleidda einingu hækki umtalsvert á spátímabilinu.

Undrast vísun í litla alþjóðlega verðbólgu

Arion banki segir það undarlegt að lítil alþjóðleg verðbólga sé tiltekin sem mótvægi við innlendan verðbólguþrýsting sem röksemd um batnandi verðbólguþróun, einkum í ljósi nýlegrar verðbólguþróunar í helstu viðskiptalöndum okkar.

Seðlabankinn gerir ráð fyrir meiri hagvexti í ár nú en hann gerði í nóvemberspá sinni, eða 5,3% í stað 4,5% meðan horfur næstu ára séu svipaðar og áður.

Vegna þess að hagvaxtaruppfærslan byggir á því að bankinn reikni með meiri fjárfestingum en áður verði framleiðsluspennan meiri og atvinnuleysið minna.