*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 14. nóvember 2017 11:26

Spá óbreyttri verðbólgu

Greining Íslandsbanka telur vísitölu neysluverðs muni standa óbreytt í nóvember og verðbólga því 1,9%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Greining Íslandsbanka spáir óbreyttri vísitölu neysluverðs í nóvember og þar með að verðbólga á ársgrundvelli verði óbreytt í 1,9%. Í greiningunni segir að lækkandi raforkuverð vegi upp hóflega hækkun húsnæðisverðs. Þá segir jafnframt að eldsneytisverð hækki en flugfargjöld lækki.

Þá áætlar greining bankans að verðbólga hækki um 0,2 prósentustig í desember og verði 2,1% í árslok 2017. Árið 2018 verði 3,0% verðbólga en árið 2019 verði hún 2,5%.

Ennfremur segir að útlit sé fyrir að mæling Hagstofunnar á breytingum neysluvöruverðs verði fremur bragðdauf í nóvember. Stöðug króna og litlar sviptingar í kostnaðarverði ýmissa vöruflokka leiða líklega til þess að margir undirliðir muni lítið breytast.

Í langtímaspá greiningarinnar segir að verðbólga verði við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans en ef hægir á húsnæðismarkaði gæti verðbólga verið eilítið undir markmiði árin 2018 og 2019. Veikist krónan hins vegar á næstu tveimur árum gæti það þýtt að verðbólga fari hækkandi og verði komin í ríflega 5% undir lok árs 2018.