Hagstofa Íslands mun birta verðbólgutölur þann 25. september næstkomandi. IFS Greining spáir því að verðlag muni vera óbreytt í september frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir hækkar tólf mánaða verðbólgan úr 2,2% í 2,3%. Verðbólga undanfarna þrjá mánuði á ársgrundvelli lækkar úr 3,9% í 2,8%.

IFS Greining gerir ráð fyrir því að sumarútsölur, sem gengu að hluta til baka í síðasta mánuði, muni ganga að fullu til baka í septmber. Verð á fötum og skóm muni hækka um 4,2% í september. Hins vegar gerir spáin ráð fyrir að ferða- og flutningaliðurinn lækki auk húsnæðisliðarins.

Bráðabirgðaspá IFS Greiningar gerir ráð fyrir að verðlag hækki um 0,2% í október, 0,1% í nóvember og 0,4% í desember. Gangi spáin eftir mælist tólf mánaða verðbólga 3,1% í desembermánuði.