Greiningardeild Arion banka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands mun halda (meginvöxtum) stýrivöxtum óbreyttum á fundi nefndarinnar næstkomandi miðvikudag.

Bankinn segir að verðbólga sé ennþá undir markmiði og verðbólguspá hafi verið lækkuð fyrir næstu mánuði. Verðbólguþrýstingur sé ennþá til staðar vegna framleiðsluspennu og launahækkana. Hingað til hefur lækkun hrávöruverðs, lítil innflutt verðbólga og sterkari króna haldið aftur af verðbólgunni. Greiningardeildin spáir 25 punkta hækkun stýrivaxta bæði ágúst og október.

Greiningardeildin telur nær öruggt að verðbólguspá Seðlabankans, sem verður birt í Peningamálum samhliða vaxtaákvörðun, verði færð niður frá því í nóvember. Nærhorfurnar, alþjóðleg verðlagsþróun og einkum frekari lækkun olíuverðs, hafa ef eitthvað er frekar gefið svigrúm til hægari vaxtahækkunar. Styrking krónunar er þó ein helsta ástæðan fyrir betri verðbólguhorfum til skemmri tíma.