*

þriðjudagur, 24. október 2017
Innlent 9. júní 2017 17:55

Spá óbreyttum stýrivöxtum

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni halda vöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi, þann 14. júní næstkomandi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni halda vöxtum óbreyttum á vaxtaákvörðunarfundi sínum næstkomandi miðvikudag, 14. júní. Þetta kemur fram á vef bankans.

„Það sem helst mælir með vaxtalækkun er áframhaldandi lágt verðbólgustig og styrking krónunnar frá síðasta fundi. Við teljum þó að styrking krónunnar sé ekki af þeirri stærðargráðu að hún ein og sér nægi til að sannfæra meirihluta nefndarinnar um að lækka stýrivexti frekar að þessu sinni,“ segir í samantekt deildarinnar.

„Okkur sýnist líklegra að vöxtum verði haldið óbreyttum og að nefndin kjósi að bíða eftir frekari merkjum sem réttlæta lækkun vaxta, s.s. sterkari kjölfestu verðbólguvæntinga.“

Þann 31. maí gaf hagfræðideild Landsbankans út þjóðhags- og verðbólguspá til þriggja ára. Í henni er gert ráð fyrir að stýrivextir muni lækka um samtals 0,25 prósentustig það sem eftir lifir árs. Auk þessa fundar mun nefndin funda fjórum sinnum í viðbót fyrir árslok.