Greining Íslandsbanka spáir óbreyttum stýrivöxtum við næstu vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands þann 15. nóvember næstkomandi. Verði það raunin munu vextir haldast í 4,25%. Greining Íslandsbanka telur að lækkun raunstýrivaxta vegna aukinnar verðbólgu, sem hækkaði um 0,5 prósentustig í október, auk óvissu um opinber fjármál og vinnumarkað muni ráða ákvörðun bankans.

Þó eru færð rök fyrir því að Seðlabankinn gæti lækkað vexti kysi hann að líta heldur til hægari hagvaxtar og fasteignamarkaðar, stöðugs gengis krónunnar og góðra verðbólguhorfa til meðallangs tíma.

Í greiningunni segir að erfitt sé að ráða í áherslur peningastefnunefndarinnar um þessar mundir. „Af síðustu yfirlýsingu, sem og fundargerð eftir síðasta vaxtaákvörðunarfund, má merkja talsverðan almennan dúfuham á nefndarmönnum. Því er alls ekki útilokað að vextir verði lækkaðir um 25 punkta 15. nóvember.“

Þá telur greining Íslandsbanka að framsýna leiðsögn peningastefnunefndar hafi verið gagnslítil undanfarið ár þar sem nefndin hafi að mestu sleppt því að undirbúa vaxtalækkunarskref með framsýnni leiðsögn. Samfara því sé erfitt að lesa í áhrifaþætti á borð við pólitíska óvissu og gengisþróun krónu því þeir virðist hafa mismunandi vægi við ákvarðanatökuna frá einum tíma til annars.

„Þegar vægi framsýnnar leiðsagnar minnkar leiðar það að öðru jöfnu til meiri óvissu um peningastefnuna til skemmri tíma litið, og þar með meiri sveiflna í vaxtavæntingum og langtímavöxtum en æskilegt væri.“

Ennfremur er bent á að vaxtamunur við útlönd hafi lækkað lítillega frá síðustu vaxtaákvörðun og sé nú 4,6% gagnvart EUR, 3,6% gagnvart GBP og 2,6% gagnvart USD miðað við 10 ára ríkisbréf. Viðskiptablaðið greindi frá því að á fimmtudaginn í síðustu viku hefði Englandsbanki hækkað stýrivexti í fyrsta sinn í áratug en þar með eru bæði hann og Seðlabanki Bandaríkjanna komnir í vaxtahækkunarferli.

Spá vaxtalækkun á næsta ári

Greining Íslandsbanka telur að þegar líði á næsta ár nái verðbólga jafnvægi og frekar dragi úr framleiðsluspennu gæti skapast svigrúm fyrir frekari lækkun stýrivaxta þannig að raunstýrivextir verði innan við 1% í lok árs 2018 en þeir eru nú um 2-2,5%.