Greining Íslandsbanka spáir óbreyttum stýrivöxtum við næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar þann 14. mars.

Greining bankans tiltekur nokkur rök fyrir hærri stýrivöxtum en þau eru minna aðhald opinberra fjármála, allhraður vöxtur einkaneyslu, þensla á vinnumarkaði, horfur á heldur meiri verðbólgu, hærra verðbólgaálag og þörf fyrir áframhaldandi peningalegt aðhald næsta kastið.

Þá tiltekur greiningin einnig rök fyrir lægri stýrivöxtum en þau eru að verðbólguvæntingar séu enn nærri markmiði, hægari hækkanir á íbúðamarkaði, minnkandi hagvöxtur, minni framleiðsluspenna, stöðug króna og vaxtamunur við útlönd.

Þá segir greiningin að við ákvörðunina í næstu viku muni bráðabirgðatölur Hagstofunnar fyrir landsframleiðslu á öllu árinu liggja fyrir en líklegt þykir að peningastefnunefnd taki mið af þeim tölum ekki síst hvað varðar þróun opinberra fjármála og atvinnuvegafjárfestingar. Seðlabankinn hefur áætlað hagvöxt á árinu 2017 3,4% í febrúarspá sinni sem er öllu lægra en þau 4,1% sem greiningin telur vöxtinn hafa verið. Reynist vöxturinn í samræmi við spá Íslandsbanka er talið að peningastefnunefndin sjái ástæðu til meira aðhalds en ella.