Miðvikudaginn 16. nóvember verður tilkynnt um vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Að mati Greiningardeildar Arion banka er tvísýnt um ákvörðun nefndarinnar. Þau telja þó vaxtahækkun óhugsandi og mun því valið að þeirra mati standa á milli óbreytra stýrivaxta eða vaxtalækkunar upp á 25 eða 50 punkta. Þau telja að vaxtahaukar muni hafa vinninginn og spá því óbreyttum vöxtum. Þetta kemur fram í ítarlegri greiningu Greiningardeildar Arion banka.

Ýmis rök eru bæði fyrir lækkun vaxta annars vegar og fyrir því að halda óbreyttum vöxtum hins vegar. Í greiningu Arion banka á málinu kemur meðal annars fram að: „Í röksemd teljum við að peningastefnunefnd muni vísa í ýmis merki um töluverða spennu í hagkerfinu og því þurfi að viðhalda aðhaldi peningastefnunnar. Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur raunvaxtastig lítið breyst, hvort sem miðað er við 5 ára verðbólguálag eða núverandi verðbólgu, og því hafa þær forsendur ekki breyst svo neinu munar frá því í október. Í hagspá okkar gerum við ráð fyrir að Seðlabankinn haldi raunvaxtastigi nokkurn veginn óbreyttu næstu mánuðina eða vel inn á næsta ár líkt og sést á myndinni að neðan.“

Einnig benda greiningaraðilarnir á að ef gengi krónunnar heldur áfram að styrkjast frekar á næstunni sé það líklegt að peningastefnunefnd breyti um kúrs og lækki vexti.

„Samhliða stýrivaxtaákvörðun gefur Seðlabankinn út Peningamál og reiknum við fastlega með að þar verði verðbólguspá færð niður til skemmri tíma til samræmis við styrkingu krónunnar. Hins vegar gæti verðbólguskot verið að finna í lengri tíma spá ef bankinn metur að krónan sé að ofrísa. Ástæða er til að gengi krónunnar fái mikla vigt í umfjöllun bankans. Í því sambandi er lykilatriði hvaða stefnu peningastefnunefnd mótar í gjaldeyrisinngripum og skýrist það vonandi á næsta vaxtaákvörðunarfundi,“ segir í greiningu bankans.

Í greiningu Arion banka eru teknir saman helstu áhrifaþættir sem gætu haft áhrif á ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans. Annars vegar rök fyrir óbreyttum vöxtum og hins vegar rök fyrir því að halda vöxtum óbreyttum að mati Greiningardeildar Arion banka.

Rök fyrir óbreyttum vöxtum

  • Hröð kaupmáttaraukning.
  • Væntingavísitala.
  • Spenna á vinnumarkaði.
  • Stefna í ríkisfjármálum.
  • Erlend verðbólga og hrávöruverð.
  • Raunvaxtastig og verðbólguvæntingar.

Rök fyrir lækkun vaxta

  • Hægur útlánavöxtur.
  • Aukinn þjóðhagslegur sparnaður.
  • Skortur á gjaldeyrisútflæði.
  • Fyrsta skrefi í losun hafta lokið.
  • Styrking krónunnar.
  • Stækkun gjaldeyrisforðans.