Í nýrri mannfjöldaspá Hagstofu Íslands er spáð því meðalaldur haldi áfram að aukast og að fleiri flytjist til landsins frá því á hverju ári. Það eigi þó ekki við um íslenska ríkisborgara sem flytji áfram í meira máli frá landinu en til þess.

Stúlkur sem fæddar eru í ár geta vænst þess að verða 83,9 ára gamlar en nýfæddir drengir 79,8 ára. Stúlkur fæddar við lok spátímabilsins, árið 2067 geta hins vegar vænst þess að verða 88,7 ára en drengir 84,4 ára.

Spáin byggir á tölfræðilíkunum fyrir búferlaflutninga, frjósemi og dánartíðni og eru gerð þrjú afbrigði með mismunandi forsendum um þau atriði auk hagvaxtar. Þannig reiknar háspáin með því að þjóðin verði allt að 513 þúsund manns við lok spátímabilsins árið 2067, en lágspáin að íbúar landsins telji 365 þúsund þá.

Miðgildið er þá 436 þúsund, en samkvæmt miðspánni verða fleiri fæddir á hverju ári heldur en deyja alveg fram til ársins 2061 en einungis til 2041 samkvæmt lágspánni. Miðspáin gerir ráð fyrir að yfir fimmtungur þjóðarinnar verði eldri en 65 ára árið 2039 og yfir fjórðungur árið 2057.

Það er enn sem komið er mun lægra hlutfall en meðal flestra Evrópuþjóða, en árið 2060 verður þá þegar þriðjungur þeirra eldri en 65 ára. Gert er ráð fyrir að hlutfallið verði hér það sama og er nú í ESB löndunum, 19%, árið 2031.