*

mánudagur, 23. október 2017
Innlent 25. júní 2012 11:53

Spá því að verðbólga fari niður í 4,9%

Greining Íslandsbanka er sammála öðrum markaðsaðilum; aukin samkeppni lækkar verð og heldur verðbólgu niðri.

Ritstjórn
Axel Jón Fjeldsted

Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir því að vísitala neysluverðs verði óbreytt á milli mánaða. Gangi það eftir mun verðbólga fara úr 5,4% í 4,9%. Þetta er sama verðbólga og aðrir greinendur spá, þar á meðal greiningardeild Arion banka og IFS Greining. 

Í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka segir að það sem helst móti spánna sé lækkun á eldsneytisverði, árstíðarbundnar verðbreytingar í ferðaþjónustu, áframhaldandi hækkun húsnæðisverðs og samkeppnisáhrif.

Bent er á að eldsneytisverð hafi lækkað frá síðustu mælingu. Þá sé búist við að aukin samkeppni hafi skilað sér í verðlækkun bæði á flugfargöldum til útlanda og í verslun með fatnað og byggingavörur. Á móti vegi nokkur hækkun á liðum á borð við mat- og drykkjarvörur, húsnæðislið vísitölunnar og þjónustu hótela og veitingastaða.